154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

fjarnám á háskólastigi.

72. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er komið að því að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um fjarnám á háskólastigi. Þetta er tillaga sem liggur fyrir á þskj. 72 og er mál nr. 72. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru þau Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson og Gísli Rafn Ólafsson.

Ég ætla að fara yfir tillöguna sjálfa en hún gengur út á það að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta á háskólastigi. Markmið vinnunnar verði að tryggja aðgang að námi. Áhersla verði á að greina hvernig íslenskir háskólar geti ávallt verið í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta og þannig tryggt aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskóla eða í fjarnámi.

Í vinnu starfshópsins verði lögð áhersla á nokkra þætti sem eru taldir upp í sex liðum. Ég ætla að fara yfir þá. Það eru gæði og þróun stafrænna kennsluhátta, aukið framboð fjarnáms, bæði heilla námsleiða og einstakra námskeiða, og að allt nám sem mögulegt er að stunda sem fjarnám verði sett fram stafrænt óháð því hvort meginreglan sé að nemendur stundi stað- eða fjarnám í viðkomandi grein. Áhersla verði lögð á að fara yfir réttindi og hlutverk nemenda, hvort sem þeir stunda fjar- eða staðnám, og fara yfir samfélagslegt hlutverk háskólanna. Þá loks hlutverk stjórnvalda í stuðningi við fjarnám á háskólastigi.

Lagt er til að skipaður verði starfshópur sem skili niðurstöðum til ráðherra fyrir lok maímánaðar 2024 og að ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum hópsins.

Þessi tillaga hefur verið flutt áður, fyrst á 144. þingi og svo með nokkrum breytingum, og er nú endurflutt með minni háttar breytingum frá síðasta þingi. Bæði eru minni háttar breytingar á tillögunni sjálfri og greinargerðinni.

Möguleikarnir á að nota stafræna kennsluhætti til að tryggja aðgengi að námi og bestu aðstæður til náms og kennslu aukast stöðugt. Samhliða vex eðlileg krafa samfélagsins um að allt nám á háskólastigi sem mögulegt er að bjóða með stafrænum hætti verði í boði sem slíkt, óháð því hvort meiri hluti námsmanna sækir það í fjarnámi eða staðnámi. Ég hef aldrei heyrt jafn mikið ákall um þessa breytingu eins og síðustu vikur og daga. Fólk sem býr vítt og breitt um landið býr við þær aðstæður að geta ekki sótt háskóla heim daglega og gerir einfaldlega þá kröfu að það geti samt sem áður menntað sig, hvort sem um er að ræða fyrstu háskólagráðu eða framhald. Sérstaklega er krafan auðvitað frá fólki sem er að halda áfram að mennta sig, sem er að stunda sína símenntun gegnum háskólana og bæta við sig gráðu, t.d. kennarar sem eru búnir að kenna lengi og vilja bæta við sig til að þjónusta ákveðinn hóp nemenda, hugsanlega félagsráðgjöf eða kúrsum í sálfræði og ýmislegt mætti nefna.

Rétt til að geta þess þá er tillagan í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að átak verði gert í netvæðingu náms og aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, sem liður í því að auka aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum.

Ég vil benda á að það er ítarleg greinargerð með tillögunni þar sem er m.a. farið yfir hvernig staðan er í hverjum háskóla fyrir sig samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir lágu síðasta vor.

Mig langar að víkja að því að í síðustu viku fékk ég tækifæri til að ræða um fjarnám eða í raun um aðgengi að námi á byggðaráðstefnunni 2023, en byggðaráðstefna var haldin undir yfirskriftinni Búsetufrelsi. Ég fékk spurninguna: Hvað get ég lært? og fjallaði um það. Jafnframt voru fulltrúar frá sex af sjö háskólum í pallborði á ráðstefnunni sem fóru aðeins yfir það sem er á döfinni í fjarnámi og breytingarnar og þróunarverkefnin sem eru í gangi í háskólunum. Þar er auðvitað mjög margt að gerast en það sem stóð samt eftir hjá mér eftir þann dag var að við þurfum að hreyfa okkur miklu hraðar til að auka búsetufrelsi fólks sem vill stunda háskólanám, og ég tala nú ekki um þá sem eru að stunda háskólanám í símenntun og eru búnir að koma sér fyrir með fjölskyldu vítt og breitt um landið.

Ég hef lengi fylgst með fjarnámi. Ég hef sjálf verið í fjarnámi á framhalds- og háskólastigi. Ég hef fylgst með börnunum mínum í fjarnámi og ég hef unnið við að þjónusta fjarnema hjá Austurbrú. Ég var einmitt í slíkum störfum þegar sprenging varð í framboði fjarnáms um og upp úr aldamótunum síðustu og hef fengið tækifæri til að fylgjast með því hvernig menntuðum kennurum, félagsliðum, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað víða um landið, bæði í gegnum fjarnám á framhaldsskólastiginu og á háskólastiginu. Ég hef séð marga byrja á því að ná sér í framhaldsskólaeiningar í fjarnámi og fara síðan í fjarnám á háskólastigi. En á sama tíma hef ég líka átt samtöl við marga, eins og ég kom inn á fyrr í ræðunni, sem ekki hafa komist í það nám sem mestur áhugi er fyrir vegna þess að fólk er í starfi sem ekki leyfir það að mæta í kennslustundir, vegna fjölskylduaðstæðna eða þá að þetta er afreksfólk sem vegna æfinga eða keppni missir úr reglulegum kennslustundum. Meira að segja er þetta oft fólk sem veit hvar skóinn kreppir í sínu nærumhverfi og vill sækja sér þá þekkingu sem vantar í samfélagið þar sem það býr. Ég man t.d. eftir einni sem reyndi ítrekað að fá að sækja fjarnám í talmeinafræði. Sveitarfélagið þar sem hún bjó hvatti til þess, talaði við skólann o.s.frv. en ekkert gekk. Ég hef einnig fengið svipuð dæmi um félagsráðgjöf og meistaranám í sálfræði, klínísku sálfræðina. Þetta er í öllum tilfellum fólk sem er búið með grunnnám og væri þá að bæta við sig. Ég hef líka fengið ábendingar frá fólki sem vill taka vettvangsnám á landsbyggðinni af því að það vill vera undirbúið fyrir störf þar, t.d. vettvangsnám í heilbrigðisgreinum. Þetta hefur líka gerst í tölvunarfræði og jafnvel í íþróttafræði. Svo eru líka dæmi um að fólk hafi sótt vettvangsnám á landsbyggðinni, en þarna þurfum við að bæta samræmið.

Við vitum að skólastarf hefur áhrif á þróun samfélaga og það endurspeglast í menntastefnunni okkar, menntastefnu til 2030. Samkeppnishæfni þjóða byggir á menntun og hið sama á við um samkeppnishæfni landshluta og samfélaga. Þess vegna er þetta ekki einungis mál einstaklinga heldur bæði mál einstaklinga og samfélaga. Víða í gegnum starf mitt og áhuga á norðurslóðum hef ég séð útfærslur þar sem háskólar eru með starfsstöðvar eða námsver á mörgum stöðum, t.d. í Skotlandi, Norður-Noregi, Norður-Kanada og víðar.

Þá ætla ég að koma aðeins að svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra frá því í mars 2023 en þá barst svar við fyrirspurn frá hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur. Þar kemur fram að mikill munur er á hlutfalli þeirra námskeiða sem eru aðgengileg í fjarnámi eftir háskólum. Hæst er hlutfallið í Háskólanum á Akureyri og á Bifröst þar sem öll námskeið eru í boði í fjarnámi. Lægst er það í Listaháskólanum þar sem ekkert fjarnám er, en sérstaka athygli vekur að aðeins 15,9% námskeiða við Háskóla Íslands eru aðgengileg í fjarnámi. Það þýðir að á heildina litið eru 75% námskeiða við háskóla á Íslandi einungis aðgengileg í staðnámi. Það getur ekki verið ásættanlegt fyrir samfélag dagsins í dag og markmið um jafnrétti til náms, hvorki fyrir einstaklingana né samfélögin.

Eins og fram kom í upphafi framsögunnar hefur tillagan verið flutt áður. Í umsögn frá Háskóla Íslands um tillöguna á síðasta ári, frá síðasta þingi, kom fram að dæmi væru um að fólk fengi undanþágu frá staðnámi í greinum sem ekki eru í boði í fjarnámi. Í ljósi þessarar umsagnar lagði ég fram fyrirspurn til ráðherra háskólamála og fékk svar við þeirri fyrirspurn í gær. Þar kemur fram að ekki er til nein skráning á slíkum undanþágum. Ég hef reynt að leita að upplýsingum um það ef fólk einhverra hluta vegna óskar eftir því að stunda fjarnám þrátt fyrir að það sé ekki almenna reglan í viðkomandi grein. Um það virðast ekki vera til neinar verklagsreglur, hvorki um tímasókn, próftöku eða breytingar á þeim og ég held að úr þessu sé mjög mikilvægt að bæta. Það hefur komið mjög víða fram að það vantar upp á upplýsingagjöf. Það er ekki aðgengilegt að finna út úr því hvaða nám er í boði í fjarnámi, en eitt af því ánægjulega sem kom fram á byggðaráðstefnunni í síðustu viku er að það yrði gjörbylting á framsetningu upplýsinga um nám við Háskóla Íslands þegar næsta kennsluskrá kæmi út. Svo þekkjum við það að í gegnum tíðina hafa símenntunarmiðstöðvarnar oft verið að tína saman þessar upplýsingar til að gera þær aðgengilegri fyrir þá sem búa úti um landið.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á mikilvægi háskólasamfélags. Þó að mikilvægt sé að auka framboð á fjarnámi er líka mikilvægt að viðhalda háskólasamfélögunum, ekki síst fyrir yngstu háskólanemana, þá sem eru í grunnnáminu. Þess vegna hef ég t.d. áhyggjur af því að vægi staðbundins háskólasamfélags yngstu háskólanemanna við Háskólann á Akureyri hefur minnkað eftir Covid og finnst að leggja þurfi einhverja vinnu í að byggja það upp aftur. Það þarf líka að viðurkenna hlutverk símenntunarmiðstöðvanna við að byggja upp þjónustu og samfélag fyrir fjarnema og ýmsa upplýsingagjöf og þjónustu símenntunarmiðstöðvanna þyrfti að samræma á milli skólanna.

Nú er tími minn að verða liðinn og ég vil að lokum leggja til að tillagan gangi til allsherjar- og menntamálanefndar og fái þar umfjöllun. Ég get aldrei lagt nægilega áherslu á hvað fjarnám er mikilvægt fyrir búsetufrelsi.