154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það voru ánægjuleg tíðindi í gær þegar hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, í sérstakri umræðu sem ég óskaði eftir um fyrirhugaða sameiningu framhaldsskólanna, sagðist hafa sett fyrirhugaðar sameiningar til hliðar. Það er nefnilega að mörgu að hyggja og þegar þessi mál eru rædd þarf að líta til þess að skólar eru stofnanir með sögu og menningu og sterk tengsl út í samfélagið. Það er ekki sjálfgefið að rífa þá upp með rótum eða jafnvel leggja niður til að mæta spám um skammtímasveiflur í aðsókn. Eins og við höfum séð og heyrt er þetta mjög viðkvæmt og í augum flestra risastórt, enda erum við að tala um börnin okkar og unga fólkið og það er ekki óeðlilegt að það hafi verið og séu áhyggjur. Þetta er mikilvægt, ekki síst þegar horft er til þess að almenn líðan ungs fólks er alls ekki nægilega góð. Aukin geðheilsuvandamál og almennt óöryggi, auk mikillar skautunar í umræðunni er veruleiki sem ungt fólk býr við. Skólar eru stór partur af daglegu lífi ungs fólks og þegar gera á afdrifaríkar breytingar á því án þess að þau séu höfð með í ráðum þá er eðlilegt að brugðist sé við með harkalegum hætti eins og gerðist nú, enda ef við meinum það sem við segjum þegar við tölum um að hlusta eftir röddum barna og unglinga þá þarf auðvitað að hafa þau með í ráðum.

Það er alveg ljóst að ýmislegt þarf að gera til þess að framhaldsskólarnir, nemendur og starfsfólk blómstri, hvort sem við erum að tala um að byggja upp góða aðstöðu fyrir verknám og/eða styrkja starfið með öðrum þeim hætti sem þarf. Svo þarf að fara vel yfir blessað reiknilíkanið og muna að ekki geta allir skólar fallið undir sömu skilgreininguna og það er mikilvægt að horfa til fjölbreytileikans.

Mig langar á þessum tímapunkti að þakka nemendum og starfsfólki framhaldsskólanna fyrir að taka þátt í umræðunni og gera grein fyrir sínum áhyggjum og afstöðu. Umræðan skiptir máli og getur breytt stöðunni í flóknum málum eins og þessum. Þannig samfélag viljum við, ekki síst fyrir unga fólkið og komandi kynslóðir.