154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi. Tillagan er borin upp af þingflokki Samfylkingar og hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að þjóðarmarkmiði um að allir Íslendingar fái heimilislækni og heimilisteymi á heilsugæslu. Stefnt verði að því að markmiðið náist á næstu tíu árum. Á næstu fjórum árum verði einstaklingar yfir 60 ára, langveikir og öryrkjar í forgangi.

Í tillögunni er einnig aðgerðalisti í þremur liðum sem ráðast þarf í til að markmiðum tillögunnar verði náð. Við þurfum öll að reiða okkur á heilbrigðiskerfið og þegar það virkar sem skyldi þá veitir það okkur öryggi. Stjórnmálafólk ber ábyrgð á stjórn heilbrigðismála í landinu og það er okkar að tryggja skipulag, veitingu fjármagns og skynsamlega nýtingu þess innan heilbrigðiskerfisins til að kerfið geti starfað með eðlilegum hætti í þágu fólksins í landinu. Af samtölum við fólkið í landinu og niðurstöðum kannana á því hvað fólk telur til brýnustu samfélagsmálanna til úrlausnar hér inni eru umbætur í heilbrigðisþjónustu efstar á blaði. Fólk vill öryggi og vill hafa fullvissu um að það hafi aðgengi að öflugu heilbrigðiskerfi þegar á reynir.

Þess vegna settum við í Samfylkingunni af stað metnaðarfullt málefnastarf síðastliðinn vetur og gerðum það að markmiði að opna starfið upp á gátt, færa málefnavinnuna nær almenningi og bjóða öllum að taka þátt. Við ferðuðumst um landið og héldum hátt í 40 opna fundi þar sem við ræddum heilbrigðismál við fólkið í landinu, sem deildi með okkur reynslusögum, áhyggjum og þekkingu sinni. Að auki héldum við fjölda funda með starfsfólki og sérfræðingum sem starfa í kerfinu og veita fólki heilbrigðisþjónustu alla daga. Þetta fólk þekkir áskoranirnar af eigin raun.

Afrakstur þessarar vinnu voru fimm þjóðarmarkmið, Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum, sem komu út nú á dögunum. Ég vil vekja athygli á því í þessum málaflokki að Samfylkingin áttar sig alveg á að þetta eru risavaxin verkefni og flokkurinn boðar engar töfralausnir. Við vitum að ef vel á að takast þarf að vanda til verka og við verðum að vera ærleg við þjóðina. Við verðum að viðurkenna að við verðum að verja auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið, á réttu stöðunum og fjárfesta í sterkara og betur reknu kerfi til að draga úr kostnaði síðar meir. Óbreytt ástand er ekki valkostur að okkar mati.

Fyrsta markmiðið sem settum við fram í Öruggu skrefunum snýr að því að fólk fái fastan heimilislækni eða fast heimilisteymi innan tíu ára. Til að byrja með verði þau sem eru í brýnustu þörfinni í forgangi, einstaklingar 60 ára og eldri og öryrkjar sem og langveikir. En þetta er fólkið sem þarf mest á heimilislækni að halda. Þetta fyrsta þjóðarmarkmið er lykillinn að því að kerfið virki í heild sinni, bæði til að bæta þjónustuna, en líka til að fara betur með fjármagn.

Skortur á föstum tengilið í heilbrigðiskerfinu sem þekkir sitt fólk og hefur yfirsýn veldur miklu óöryggi hjá fólki. Þetta veldur álagi, bæði innan heilsugæslunnar sem og annars staðar í kerfinu. Óöryggið er jafnframt óhagkvæmt og rannsóknir sýna að innlagnir á sjúkrahús eru 30% algengari hjá þeim sem hafa ekki fastan heimilislækni. Að auki hefur fólk með heimilislækni bæði lægri dánartíðni og betri lífsgæði. Þess vegna er brýnt að stefna að því þjóðarmarkmiði að tryggja öllum Íslendingum fastan heimilislækni eða, þar sem því verður ekki við komið, fastan tengilið við teymi heilbrigðisstarfsfólks á heilsugæslu, svokölluðu heimilisteymi, á næstu tíu árum.

Aðgerðir að þessu markmiði falla í þrjá flokka. Í fyrsta lagi verður komið á fót heimilisteymum á heilsugæslum og heimilislækningar styrktar. Grundvallaratriði í því markmiði er að fastur heimilislæknir og heimilisteymi hafi rými til að sinna því fólki sem er skráð hjá viðkomandi lækni og teymi. Þess vegna þarf að setja í forgang vinnu við að fjölga heimilislæknum og hvetja til þess að heilsugæslurnar taki upp svokölluð heimilisteymi.

Samfylkingin leggur til að heilsugæslum verði tryggður fjárhagslegur hvati til að koma upp teymum heilbrigðisstarfsfólks til að sinna föstum hópi einstaklinga og heimila til að tryggja samfellu í veitingu heilbrigðisþjónustu. Heimilisteymi auka aðgengi, skilvirkni og umrædda samfellu í þjónustu. Einungis hluti þeirra sem kemur á heilsugæslu þarf tíma hjá lækni. Margir þeirra sem þangað leita þurfa annars konar þjónustu hjá öðru heilbrigðisstarfsfólki, svo sem hjúkrunarfræðingi eða sálfræðingi. Þess vegna liggur alveg fyrir að teymi getur vel virkað fyrir fjölda heimila.

Þá leggur Samfylkingin áherslu á að sérnám í heimilislækningum verði áfram styrkt og fjármagn tryggt til að fjölga í náminu. Á undanförnum árum hefur fjölgað í hópi sérnámslækna í heimilislækningum og tryggja þarf áframhaldandi þróun þar á. Til viðbótar er lagt til að heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands verði tryggt fjármagn til að fjölga nemendum í læknadeild Háskóla Íslands í samræmi við núverandi áætlanir. Viðbótarfjárveitingar til Háskóla Íslands á undanförnum árum hafa runnið í meira mæli til annarra sviða, til að styrkja grunnrekstur þeirra. Ef átak á að verða í menntun lækna hér á landi verður að tryggja að fjármagn sé eyrnamerkt í þá vegferð. Lykilatriði í þeirri vegferð er að fjölga nemendum í læknanámi og þess vegna verðum við að fjármagna betur helstu kennslustofnun landsins í heilbrigðisvísindum, sem er Landspítali - háskólasjúkrahús. Spítalinn hefur ekki treyst sér til þess að taka við fleiri nemum í verknám án þess að það komi niður á gæðum námsins.

Ég vil vekja athygli á því í þessu samhengi að forsvarsmenn Landspítala komu í morgun á fund fjárlaganefndar og þar kom m.a. fram að sérnám sem veitt er inni á spítölunum í dag, sem snýr auðvitað ekki að heimilislækningum í mörgum tilvikum, en er almennt sérnám, er ekki fjármagnað, það koma ekki sérfjárveitingar inn til háskólasjúkrahússins okkar til að sinna þessu þannig að við sjáum að það eru ágallar á kerfinu.

Að lokum bendum við á mikilvægi þess að sérnámi í héraðslækningum verði komið á fót, líkt og lagt var til í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 á sínum tíma. Þar var hugmyndin að koma á tveggja ára námi sem búi heilsugæslulækna undir starf í dreifbýli með það að markmiði að fjölga heilsugæslulæknum á landsbyggðinni. Við leggjum áherslu á að þessi aðgerð verði endurvakin enda er þetta mikilvæg sérgrein þegar kemur að heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum.

Í öðru lagi, ef við snúum okkur að aðgerðunum í átt að þessu tíu ára markmiði um fastan heimilislækni, þarf að tryggja fólki fasta tengingu við heilbrigðiskerfið um land allt. Á höfuðborgarsvæðinu er vissulega fjöldi fólks án heimilislæknis en læknaskortur er áþreifanlegur og viðvarandi utan höfuðborgarsvæðisins. Nú eru aðeins um 50% Íslendinga með fastan heimilislækni. Í Noregi er hlutfallið 95%, þannig að það liggur alveg fyrir að hér er langt í land.

Það hefur gengið illa að manna fastar stöður, sér í lagi á landsbyggðinni, og víða er stuðst við verktaka í vinnu sem hafa ekki fasta tengingu við nærsamfélagið. Áreiðanleg heilbrigðisþjónusta er grundvöllur byggðar hringinn í kringum landið þannig að heilbrigðisþjónusta er í þessu tilviki ekki síður byggðamál en velferðarmál. Við erum þess vegna á þeirri skoðun í Samfylkingunni að sérstakir hvatar eða ívilnanir til að tryggja fastráðningar á heilsugæslustöðvum séu réttlætanlegar til að tryggja byggðafestu. Þess vegna leggjum við fram í þessari tillögu að námslán lækna, sem ráða sig til lengri tíma á svæðum þar sem læknaskortur er viðvarandi, verði felld niður. Slík niðurfelling getur náð til hlutalána eða til námslána að fullu leyti eftir því hversu lengi viðkomandi læknir starfar á umræddu svæði. Það er mjög mikilvægt, forseti, að fyrirkomulag niðurfellingar sé með þeim hætti að það verði tryggt að langtímasamband komist á milli læknis og heilsugæslu en stuðli ekki að frekari verktakavæðingu þar sem föst tenging við íbúa er takmörkuð.

Þá leggjum við til að skoðað verði að nýta hluta nýrra námsplássa við læknanám í Háskóla Íslands fyrir fjölbreyttari inntökuleiðir en nú eru í boði. Núna stendur til að fjölga námsplássum í læknisfræði úr 60 í 75 á næsta ári og markmið Háskóla Íslands í samstarfi við ráðuneytið er að fjölga plássum á næstu árum í 90.

Í tillögunni sem við leggjum hér fram er lagt til að skoðaður verði möguleikinn á því að halda eftir hluta af þessum nýju plássum fyrir inntökuform þar sem aðrir þættir en hæsta einkunn á inntökuprófi eru skoðaðir. Þá erum við að horfa til þess að bakgrunnur eða tengsl við svæðið þar sem læknaskortur er viðvarandi verði ein breyta sem litið verði til, sem og fyrri reynsla úr heilbrigðiskerfinu.

Forseti. Í umræðu um fjölbreytt inntökuskilyrði í læknadeild hér á landi þarf að taka til greina að ríkisreknir háskólar eru fjármagnaðir með skattfé allra landsmanna óháð búsetu. Aðeins er boðið upp á læknanám í einum háskóla á Íslandi og aðgengið hefur verið sögulega erfitt fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins. Í ljósi mikilvægis heilbrigðisþjónustu til að viðhalda byggð landið um kring, og sér í lagi grunnþjónustu á borð við heilsugæslu, þarf að vera sveigjanleiki innan ríkisrekinna háskóla til að sinna landinu öllu. Þá er víða skortur á læknum í öðrum greinum en heimilislækningum á sjúkrastofnunum.

Að lokum, í þessum hluta, þurfum við auðvitað að vera raunsæ gagnvart því að þar sem ekki hefur tekist að manna stöður heimilislækna verðum við að tryggja heilsugæslum fjármagn til að efla til muna möguleikana á að nýta fjarheilbrigðisþjónustu í meira mæli þar sem við erum til að mynda með hjúkrunarfræðing í forsvari. Heimilisteymin þurfa þannig að hafa greitt aðgengi að sérfræðiþekkingu heimilislæknis þó að það sé annars staðar á landinu. Ég minnist á þetta í þessu samhengi því að það er auðvitað alveg ljóst, eins og ég sagði, að fjölgun útskrifaðra lækna mun ekki leysa þann vanda sem blasir við í hinum dreifðari byggðum, a.m.k. ekki strax, og þess vegna þurfum við að horfast í augu við að það þarf að gera breytingar á skipulagi heilsugæsluþjónustu ef við ætlum að tryggja þetta örugga aðgengi.

Við erum líka að leggja til að skoðaðar verði mismunandi leiðir til aukinnar samvinnu við heilsugæslustöðvar á þéttbýlli svæðum, t.d. að fara þá leið að á heilsugæslustöðvum þar sem ekki tekst að manna stöður heimilislækna verði tekin upp samvinna við aðrar heilsugæslur til að tryggja aðgengi að læknum og auka samvinnu. En þetta er auðvitað algerlega háð því að annað öflugt heilbrigðisstarfsfólk sé á svæðinu, svo sem hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur eða sjúkraliði.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég fara hér yfir mikilvægi þess að bæta starfsaðstæður í heilsugæslunni af því að við vitum auðvitað að mönnunarvandi er viðvarandi vandamál. Þetta er stærsta áskorun kerfisins og við vitum að innan heilsugæslunnar hefur verkefnum fjölgað umtalsvert undanfarin ár. Þangað hafa verkefni verið flutt frá Landspítala og öðrum sjúkrastofnunum, oft án nægilegs undirbúnings og samráðs og í sumum tilfellum hefur þessu ekki fylgt nægjanlegt fjármagn. Þess vegna leggjum við áherslu á að það þarf að styrkja grunninn í heilsugæslunni áður en farið verður í að fjölga verkefnum hennar enn frekar. Það er ekki bara hægt að láta heilsugæsluna fá fjármagn sem fylgir nýjum verkefnum ef grunnverkefnin og grunnþjónustan eru ekki fjármögnuð.

Við viljum líka leggja áherslu á í þessu samhengi að starfsaðstæður séu bættar með til að mynda nýrra húsnæði fyrir heilsugæslustöðvar í nýjum hverfum eða að tryggja nýju og nútímalegt húsnæði fyrir eldri heilsugæslustöðvar. Þetta kann að hljóma smámál en fyrir fólk sem starfar í grein þar sem er mikið álag þá skiptir starfsumhverfið gríðarlega miklu máli. Það hafa verið gerðar mælingar á þessu innan heilsugæslunnar sem sýna að þar sem er verið að vinna í nýrra og nútímalegra húsnæði líður fólki almennt betur í vinnunni.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta nægja í bili en segi í lokin að þó að þetta sé fyrsta málið sem kemur fram út úr þessu útspili þá verður þetta ekki það eina. Við ætlum til að mynda að koma með fleiri þingmál sem snúa að því að bæta starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks, sér í lagi þingmál er snúa að stoðþjónustu, vegna þess að við vitum að það þarf að fjárfesta í nýjum tæknilausnum og draga úr þeim tíma sem fer í skriffinnsku hjá framlínustarfsfólki. Við erum hins vegar mjög meðvituð um að það þarf líka að ráðast í aðrar aðgerðir, til að mynda uppbyggingu hjúkrunarheimila, styrkja heimahjúkrun og þess háttar. Þetta eru þeir þættir heilbrigðiskerfisins sem munu kosta hvað mesta peninga. Staðan í heilbrigðisþjónustu í dag mun ekki skána nema við séum tilbúin að leggja alvörufjármagn þarna inn til þess að losa um svigrúm annars staðar í kerfinu.

Svo vil ég bara segja hér að lokum að við óttumst ekki umræðu um svona stóran málaflokk. Einhvers staðar þarf að byrja til að veita fólki ákveðna von og skýra framtíðarsýn, vegna þess að við sáum það á samtali okkar við fólkið úr kerfinu að það upplifir að stefnumótun til framtíðar sé óskýr. Þetta er liður í okkar verkefni að undirbúa okkur fyrir næsta kjörtímabil þar sem við vonumst eftir að geta veitt m.a. heilbrigðismálunum skýra forystu. Ég vil líka bara setja það sem hvatningarorð inn í þingið að við eigum það til að ofmeta hvað er hægt að gera á einu ári en vanmeta hvað er hægt að gera mikið á einum áratug. Þess vegna er þessum tillögum, sem m.a. má finna í þessu þingmáli, ekki ætlað að koma til framkvæmda á einu kjörtímabili. Við erum að horfa á þetta sem tveggja kjörtímabila vegferð. Við ætlum okkur ekki að fara í nein heljarstökk heldur bara örugg skref og þetta þingmál í dag er eitt slíkt skref.