154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Varðandi þáttinn sem snýr að niðurfellingu lána þá er þetta fyrirkomulag sem er þekkt í öðrum löndum, m.a. er þetta þekkt í Noregi þar sem þessi leið hefur verið farin. Það eru víða um heim ákveðnar ívilnanir sem snúa að því að reyna að hvetja fólk til að setjast að á ákveðnum svæðum. Í Bandaríkjunum til að mynda er sú staða að ef þú vilt starfa sem heilbrigðisstarfsmaður getur þú fengið landvistarleyfi til lengri tíma í ákveðnum ríkjum ef þar er fámenni. Það eru því ýmis fordæmi sem snúa að þessu.

Ég held að mikilvægasta spurningin í þessu samhengi snúi einmitt að því að tryggja aðstoð við viðkomandi lækni sem starfar á tilteknu svæði með nána tengingu. Það sem við höfum mestar áhyggjur af er að þetta fari inn í þessa verktakavæðingu sem hefur verið hingað til þar sem læknar hafa verið eða koma í eitt og eitt skipti og fólk hefur ekki þekkt þann einstakling. Við viljum ekki að þetta verði einhvers konar ívilnun fyrir einstaklinga sem þannig eru að taka þátt í kerfinu. Ég skil þessa spurningu, mér finnst hún eðlileg í þessu samhengi en ég vek bara athygli einmitt á því að þetta er leið sem hefur verið farin annars staðar.

Síðan getum við líka tekið langa umræðu um jöfn tækifæri, og jöfnuð, og hvar þau hefjast. Við höfum tekið þá ákvörðun að vera með landið í fullri byggð hérna þó að fólk geti fært fyrir því rök að það hafi kannski ekki verið unnið nógu vel að því markmiði á undanförnum áratugum. Fólk sem býr á landsbyggðinni borgar jafn háa skatta og aðrir í landinu og á að hafa aðgengi að ákveðinni heilbrigðisþjónustu. Ef það þarf að fara í ákveðna hvata og breytingar á kerfinu til að tryggja það þá finnst mér og okkur í Samfylkingunni það vera eðlilegur hvati.

Ég ætla kannski að fá að koma að því í seinna andsvari mínu varðandi verðmiða á þessari áætlun, vegna þess að það er svolítið mikið að taka inn í einni spurningu þessa tvo þætti.