154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og það er gott að átta sig á því að þarna getum við öll unnið í sömu átt og höfum raunar stefnu sem leiðir okkur áfram í því. Kannski þurfum við þá að koma því betur út, með einhvers konar formi hér í þinginu, hvernig verkum miðar. En það var gaman að hv. þingmaður nefndi einmitt héraðslækningar sem voru komnar á töluverðan skrið síðast þegar Framsókn var í heilbrigðisráðuneytinu, það var síðan lagt til hliðar einhvern tímann á seinni hluta fyrsta áratugar aldarinnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nú hafið vinnu við það aftur og ég veit að héraðslækningar og námskrá í héraðslækningum hefur verið til umfjöllunar í þeim hópi sem vinnur með námskrár, ég hef það staðfest. En hins vegar veit ég ekki nákvæmlega hvar vinnan er stödd núna, þetta er auðvitað sérfræðingahópur sem vinnur að námskrárgerðinni.