154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa innsýn og mér finnst þessi ræða segja í kannski aðeins færri orðum en ég í mínum 15 mínútna inngangi hvað þetta þingmál snýst um. Það snýst um fókus og að forgangsraða. Heilbrigðisráðuneytið er risastórt ráðuneyti og ég er alveg viss um að það er fullt af tillögum sem hafa einhvern tímann borist þangað inn og liggja þar einhvers staðar í skúffu eða er verið að vinna í einhverjum vinnuhópi. En það sem hér er verið að reyna að leggja áherslu á er að það sé fókus í því hvernig það er forgangsraðað í heilbrigðismálum og að fólk átti sig á því að í staðinn fyrir að vera að setja 100 eða 200 eða 700 milljónir í að leysa einn biðlista sem síðan poppar upp annars staðar nokkrum mánuðum seinna þarf orkan að vera á réttu stöðunum og það á að vera forgangsmál að tryggja að fólk fái fastan heimilislækni. Hér var hv. þingmaður í rauninni að lýsa þeirri stöðu og þeirri þekkingu sem býr að baki rannsóknum erlendis sem sýna mikilvægi þess að vera með fastan heimilislækni. Í Noregi eru 95% landsmanna með fastan heimilislækni, á Íslandi 50%. Það eru 30% minni líkur á því að þú þurfir á flóknari innlögn að halda ef þú ert með fastan heimilislækni. Eins og hv. þingmaður var að vitna til þá ertu með einstakling sem þekkir þig, einhvern sem getur áttað sig á því, til að mynda í þessu tilviki þegar hv. þingmaður var að kvarta yfir einhverju, að það er ekki eðlilegt, þekkist ekki í hans tilviki vegna þess að viðkomandi aðili þekkir fjölskyldusöguna. Þetta er í rauninni mjög góð lýsing á því af hverju við erum að leggja þessi öruggu skref fram með þessum hætti og þessa þingsályktunartillögu. Þetta snýst um fókus og að fólk viti hvert Samfylkingin myndi fara með heilbrigðisráðuneytið og hafa sinn fókus.

Mig langar í þessu samhengi, af því að hv. þingmaður kom inn á það að afla, hvað á ég segja, vinnuafls eða mannafla til að sinna heilbrigðisþjónustustörfum hér á landi, að spyrja hann hvort hann geti ekki tekið undir markmið okkar hér að við styrkjum okkar eigin þekkingarframleiðslu frekar en að við séum að flytja okkar fólk út, m.a. til þess að fara í nám erlendis sem sest svo þar að, og náum að mennta þetta fólk hér heima í mörgum tilfellum.