154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

76. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér í þriðja sinn fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008 (heiti stofnunar). Með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins. Það voru engir aðrir sem sáu ástæðu til að aðstoða okkur við að breyta þessu nafni en ég býst við því að það sé bara gáleysi af því að ég trúi því að hver einasti þingmaður sjái ástæðu til að koma til móts við þetta stórundarlega og yfirgripsmikla nafn með því að einfalda það eins og hér er farið fram á. En með mér á þessu frumvarpi eru sem sagt Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. laganna orðist svo: „Í stað orðanna „þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: Sjónstöðina.“

2. gr. „Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. a laganna:

a. Í stað orðanna „Þjónustu- og þekkingarmiðstöð” í 1. mgr. kemur: Sjónstöðin.

b. Í stað orðsins „Miðstöðin” í 2. mgr. kemur: stofnunin.

c. 3. mgr. orðast svo: Rísi ágreiningur um ákvörðun skv. 1.–2. mgr. er heimilt að kæra ákvörðunina til ráðuneytisins.“

3. gr. „Heiti laganna verður: Lög um Sjónstöðina.“

4. gr. „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu, sem ég hef, eins og ég nefndi, lagt fram áður á 152. og 153. löggjafarþingi, 94. mál, og náði þá ekki fram að ganga — ég átta mig ekki enn þá á því út af hverju, það er einhver stórkostlegur misskilningur að það skyldi ekki bara fljúga í gegn eiginlega átölulaust því að þetta nafn er náttúrlega svo yfirgripsmikið og algerlega út úr öllu korti. Bara núna ef ég reyni ekki að lesa þetta af blaði þá get ég hreinlega ekki sagt það. Ég er bara búin að gleyma því þar sem þetta eru náttúrlega yfir 90 stafir og ég man ekki hvað mörg orð. Þannig að þetta frumvarp er nú lagt fram eina ferðina enn. Umsagnir bárust náttúrlega um frumvarpið, eins og t.d. á 152. löggjafarþingi, frá bæði starfsmönnum og stjórnendum stofnunarinnar sem um er rætt og sem ég ætla að segja nafnið á einu sinni enn, ókei — fyrirgefðu, forseti, að ég skyldi segja ókei, ég meinti allt í lagi — en hér heitir stofnunin þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Umsagnaraðilar fögnuðu allir því markmiði frumvarpsins að leiðrétta og laga þetta óþjála heiti og mæltu með samþykki þess algerlega af heilum hug. Í frumvarpi þessu er lagt til að heiti þessarar stofnunar, sem sinnir þjónustu við blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, verði þar af leiðandi breytt. Stofnunin heitir núna — ég er náttúrlega endalaust að segja það sem ég hef áður sagt, að stofnunin heiti þessu óþjála nafni — því óþjála nafni, og ég ætla að prófa, frú forseti, hvort ég muni það utan að, þetta er alveg ótrúlegt: Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir sjónskerta (Gripið fram í: Nei, fyrir blinda. ) — fyrir blinda og sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Já, þarna kom það. Það er náttúrlega ekki eðlilegt að heiti nokkurrar einustu stofnunar skuli vera 13 orð og nafnið telji heila 90 bókstafi.

Lengst af hét stofnunin lögum samkvæmt Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra en gekk undir nafninu Sjónstöðin. Við endurskoðun laga í gegnum árin hefur heitið ítrekað tekið breytingum og stafafjöldinn hefur þar af leiðandi aukist. Það koma sem sagt alltaf einhverjir nýir að borðinu og þá þarf eitthvað að munstra, setja sinn merkimiða á það. Það tíðkast almennt ekki í heiti annarra stofnana að telja upp hvert og eitt einasta viðfangsefni sem viðkomandi stofnun er að sinna og því er engin ástæða til að beita þeirri aðferð einungis gagnvart þessari stofnun. Nú er því kominn tími til að gefa stofnuninni venjulegt nafn, bara venjulegt heiti. Nafnið Sjónstöðin lýsir vel hlutverki stofnunarinnar sem er að aðstoða þá sem eru blindir, sjónskertir og með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, auk þess sem margir kannast við heitið enda var starfrækt Sjónstöð frá 1987–2008.

Þess ber að geta — þótt það sé ekki akkúrat frumvarpið í sjálfu sér sem er í rauninni mikilvægt fyrir Sjónstöðina að fá í gegn þannig að lögin standi skýr um það að hún þurfi ekki að heita öllu þessu 13 orða nafni með 90 stöfum — að það skiptir miklu máli að við fáum Sjónstöðina aftur eins og ég kynntist henni. Bara svona til gamans og alveg fram hjá öllu þá verð ég að viðurkenna að þegar ég kom til Reykjavíkur á sínum tíma með mína sjónskerðingu þá gjörbreytti Sjónstöðin allri minni tilveru til hins betra og gaf mér tækifæri í lífinu sem ég hafði aldrei í rauninni látið mig dreyma um. Það er einmitt fyrir Sjónstöðina sem ég stend hér í dag. Þau gáfu mér tækifæri til að ganga menntaveginn, hjálpuðu mér að stækka stafina mína. Ég veit ekki hvort þið, ágætu vinir mínir, sjáið hvernig stafirnir mínir eru en til að ég geti lesið af blaði þarf ég stóra stafi. Sjónstöðin er kraftaverkastofnun fyrir alla þá sem þurfa á hjálpinni að halda, þannig að ég segi: Það væri bragur að því að við tækjum utan um Sjónstöðina okkar. Við viljum breyta nafninu úr, og einu sinni enn ætla ég að fara með þetta nafn, þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu einfaldlega í hið fallega nafn Sjónstöðin.

Ég ætla að vona að það vefjist ekki fyrir þingheimi að hreinlega gera það því að það er ekki eins og þetta sé eitthvað sem er að fara sliga ríkissjóð eða koma efnahagskerfinu á hliðina. Þetta er einfaldlega til hagræðingar og fegrunarásýndar myndi ég segja líka, svo það sé sagt. Mér þykir náttúrlega alveg ofurvænt um Sjónstöðina okkar og veit að það á við, og hér tala ég fyrir munn þeirra hundraða einstaklinga og jafnvel þúsunda sem hafa öðlast betra líf með þjónustu þessarar frábæru yndislegu stofnunar. Þannig að: Áfram veginn. Ég mun alltaf kalla hana Sjónstöðina og vona að Alþingi Íslendinga muni samþykkja að gera það líka lagalega.