154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

viðbragðsáætlun og framkvæmdir vegna eldgoss.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Margir sérfræðingar hafa orðið til að benda á mikilvægi þess að farið verði að gera ráðstafanir vegna hugsanlegra eldsumbrota, samkvæmt spám væntanlega einhvers staðar í grennd við Svartsengi ef af verður. Ármann Höskuldsson jarðfræðiprófessor, sem er í innviðahópi almannavarna, lýsti því yfir að framkvæmdir við varnargarða ættu að vera hafnar. Það væri þegar búið að fara í undirbúningsvinnuna og ríkisstjórnin virtist í þessu máli haldin einhverri ákvarðanafælni og upplýsingaóreiða fylgdi þessu í of miklum mæli. Víðir Reynisson, yfirmaður almannavarnadeildar, sagði að ákvörðun væri orðin tímabær. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er ekki orðið tímabært að fara að ráðum þessara sérfræðinga og a.m.k. taka einhverja ákvörðun og helst þá að hefja framkvæmdir til að verja byggð og aðra innviði? Eins og sérfræðingar benda á þá er of seint að hefjast handa þegar eldgos er hafið. Ég spyr hæstv. ráðherra einnig hvort ríkisstjórnin eða einhverjir á hennar vegum hafi farið í gegnum áhrif hamfaratrygginga, þ.e. hvernig túlka beri lögin, því að það hefur verið óvissa til að mynda um skilgreiningu á beinu og óbeinu tjóni og hvað yrði þá tryggt og hvað ekki. Og loks, ef tími vinnst til, vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í samstarf við björgunarsveitirnar sem hafa nú þegar auðvitað haft stóru hlutverki að gegna og gætu orðið mjög uppteknar, eins og við höfum áður séð í eldsumbrotum. Munu þær njóta fjárstuðnings ríkisstjórnarinnar?