154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

staða heyrnarskertra og skortur á heyrnarfræðingum.

[10:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þar sem greiðsluþátttaka ríkisins hefur minnkað hlutfallslega í gegnum árin þá skilst mér, og ég bið hæstv. ráðherra að staðfesta það, að við getum búist við bæði reglugerðarbreytingum og breytingu við fjárlög til að bæta úr þessari stöðu. Það er verulegur skortur á heyrnarfræðingum hér á landi og þess vegna þarf að vinna í því að fá fleiri nemendur til að mennta sig í fræðunum, en það er ekki gert. Til stóð að nemendur gætu stundað nám í heyrnarfræði í haust en skráðir nemendur fengu síðan að vita að námið færi ekki í gang vegna fjárskorts. Það gefur augaleið að það hefur hamlandi áhrif ef námið er aðeins hægt að stunda í útlöndum. Ef mönnun íslenska heilbrigðiskerfisins væri svipuð og í Svíþjóð væru 52 heyrnarfræðingar en eru nú einungis 11. (Forseti hringir.) Mun hæstv. ráðherra beita sér einnig fyrir því að nám heyrnarfræðinga verði fjármagnað?