154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

launaþróun á Íslandi.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að ég hafi falið verkalýðshreyfingunni hagstjórn á Íslandi. Það er auðvitað ekki rétt. Hins vegar styð ég að sjálfsögðu frelsi launafólks til að gera sínar kröfur og leggja sínar áherslur. Um það snýst þetta nú. Að sjálfsögðu styð ég það frelsi og geri engar athugasemdir við þá áherslu sem verkalýðshreyfingin hefur lagt á að styrkja og styðja betur við tekjulægstu hópana og ég get að mörgu leyti tekið undir það.

En eins og ég sagði áðan má hins vegar alltaf spyrja sig: Hversu mikið á bilið að vera? Hversu mikill á jöfnuðurinn að vera? Og þá kem ég aftur að því sem hv. þingmaður nefndi hér í lokin hvað varðar stöðug skilyrði. Ég vil segja það að undanfarin 15 ár hefur þetta umhverfi gjörbreyst og það sjáum við auðvitað skila sér í fjölgun nýsköpunarfyrirtækja og stóraukinni erlendri fjárfestingu í þekkingariðnaði á Íslandi. Það er vegna þess að þetta umhverfi hefur farið frá því að vera stuðningur við einstaka fyrirtæki yfir í það að vera rammi um stuðning og umgjörð ríkisins fyrir þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki. (Forseti hringir.) Og það er jákvæð þróun. Hins vegar skiptir máli að sjálfsögðu, og ég tek undir með hv. þingmanni, að við séum á tánum um það hvernig við ætlum að halda því áfram.