154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er ánægð með það að öll utanríkismálanefnd og þar með allir flokkar á Alþingi hafi sameinast um tillögu þá sem við ræðum hér núna, sem hefst á orðunum:

„Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra.“

Við tökumst oft á um ýmis mál og erum ósammála en við höfum líka sýnt það að þegar mikið er í húfi eins og núna þá getum við sameinast og náð sameiginlegri niðurstöðu. Þingmönnum hafa borist fjölmargir tölvupóstar og önnur erindi vegna átakanna sem nú eiga sér stað þar sem við erum hvött til þess að beita okkur fyrir vopnahléi. Það er í rauninni ekki í fyrsta skipti sem það gerist í málefnum sem varða Palestínu því sú hrina ofbeldisárása sem nú á sér stað á sér áratugalanga sögu. Íslendingar hafa lengi stutt málstað Palestínumanna og talað fyrir tveggja ríkja lausn eins og sást hvað best með viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Palestínu árið 2011 en einnig talað fyrir friði á svæðinu, varanlegum friði á svæðinu. Ég er ánægð með það að landsmenn láti í sér heyra og sendi okkur þingmönnum pósta, raunar svo marga að ég hef ekki komist yfir að svara þeim öllum, því að þetta er mál sem skiptir okkur máli.

Frú forseti. Um leið og ég fagna þessari tillögu þá langar mig samt líka að minnast á öll hin vopnahléin sem við og heimurinn þarf líka að beita sér fyrir. Ég vil nefna Jemen, Eþíópíu, Sýrland, Úkraínu, Mjanmar, ýmis lönd í Afríku sunnan Sahara og þetta er því miður ekki tæmandi upptalning. Vopnuð átök og stríð bitna alltaf á almenningi. Kastljósið er núna á hörmungunum fyrir botni Miðjarðarhafs og sem betur fer eru augu umheimsins þar núna og ég trúi því og treysti að krafan um vopnahlé og frið sé vaxandi í heiminum. En um leið og við beitum okkur fyrir friði þar þá megum við ekki gleyma öllum hinum stríðshrjáðu svæðunum í heiminum. Þar er líka ógeð og hörmungar að eiga sér stað og við eigum líka að beita okkur fyrir friði þar.