154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:45]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Að mínu mati er dagurinn í dag stór, dagur þar sem Alþingi Íslendinga sýnir hvað í því býr, hvers það er megnugt, talar einni röddu. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um orsakir og hugsanlegar lausnir á þeim hörmulegu átökum sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs, og sem skýrt hafa komið fram í umræðu um þessa sameiginlegu ályktun hér í dag, þá sýnum við að á Alþingi er sátt um grundvallaratriði, um helgi mannslífa, að óbreyttir borgarar eru aldrei réttmæt skotmörk, sama hvar þeir standa gagnvart stríðandi fylkingum, og að bregðast eigi við neyð þeirra og þjáningum. Það er erfitt að setja sig í spor fórnarlamba árása Hamas á Ísrael eða ímynda sér þjáningar íbúa Gaza. Hvað myndum við gera í sömu stöðu? Því miður myndum við varla bjóða hinn vangann, sennilega tala um að svara þyrfti í sömu mynt og því miður án mikillar samúðar með hugsanlegum afleiðingum fyrir óbreytta borgara meðal óvina. Það er mannlegt eðli. Þó vitum við að slík átök leiða aldrei til lausna, einungis meiri átaka, meiri þjáninga.

Við sem búum við forréttindi friðar höfum skyldum að gegna í slíkum átökum, að minna á mennskuna, minna á það sem sameinar, vera málsvarar þeirra sem enga málsvara eiga sér. Sú afstaða sameinar okkur hér í dag. Rödd hvers og eins okkar er kannski ekki sterk í alþjóðlegu samhengi en ef margar raddir koma saman styrkja þær hver aðra. Það munar um allt og sagan kennir okkur að í ófyrirsjáanlegum heimi getur lítil rödd verið allt sem þarf. Það er mér heiður að styðja þessa sameiginlegu ályktun okkar og taka undir með ykkur öllum, tala einni röddu fyrir mennskunni.