154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[13:09]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er líka stolt af því að við skulum standa hér sameinuð í dag og greiða atkvæði um þessa tillögu sem ég styð heils hugar þar sem m.a. kemur fram að tafarlaust skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza svo að tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra, og þar sem Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast að almennum borgurum. Í dag glöddumst við mörg yfir minnkandi tungli og Venus á fallegum morgunhimni en hugurinn leitar samtímis til þessa fólks sem býr við ólýsanlegan hrylling af mannavöldum undir þessu sama tungli, venjulegs fólks sem á sér þá ósk heitasta að geta lifað eðlilegu lífi og búið við frið alla daga í nútíðinni og ævinlega. Deilur fyrir botni Miðjarðarhafs verða aðeins leystar með friðsamlegum samskiptum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við hér á Alþingi tölum einni röddu með ályktun því við Íslendingar eigum að beita okkur fyrir friði við öll tækifæri. Við höfum mikilvæga rödd.