154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að vekja athygli á því að í þessari grein göngum við lengra en gengið er í Noregi með því að opna á mögulegan rétt afkomenda eða aðstandenda. Það eru hins vegar fordæmi fyrir því í sanngirnisbótamálum hér á Íslandi að gera það. Hvað varðar varanlegan skaða þá er þetta auðvitað alltaf matsatriði en það er þó leitast við að skýra það hér í frumvarpinu; varanlegar neikvæðar líkamlegar, sálrænar eða félagslegar afleiðingar. Augljóslega er þetta alltaf matsatriði og þess vegna erum við að leggja til mjög ríka aðkomu fagaðila í þessum tveimur nefndum en í matsnefnd sanngirnisbóta, sem er í raun og veru fyrri nefndin sem tekur við málum, er lagt til að tveir fulltrúar skuli skipaðir, annar með menntun í sálfræði og hinn með menntun í læknisfræði, þannig að við séum ákveðið faglegt mat á þessu. Það er það sem ég á við þegar ég segi í framsögu minni að við erum ekki bara að tala um lögfræðileg eða stjórnsýsluleg sjónarmið heldur erum við að reyna að breikka þennan grunn.