154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef mikinn skilning á því og get alveg tekið undir með ráðherra að eflaust er það mun betra að það sé svipað ferli sem öll svona mál fari í gegnum því að þetta er búið að vera mjög ruglingslegt fyrir þá aðila sem hafa lent í þessu og hafa verið að berjast fyrir sínum réttindum í í þessu kerfi. Þetta er bara búið að vera algjör frumskógur. Það er vont og það er gott að verið er að laga það. En það sem situr eftir dálítið hjá mér og ég veit hjá þeim sem hafa verið að díla við þetta og velta fyrir sér réttlætinu í þessu öllu saman, er að þarna eru hópar sem hafa lent í mjög svipuðum aðstæðum, í svipuðu ofbeldi og eru að fá einhvern veginn allt öðruvísi afgreiðslu akkúrat núna. Við þurfum ekkert að fara langt aftur í tímann. Þetta er bara akkúrat núna að gerast, að þessir hópar eru að fá mismunandi afgreiðslu.

Það sem mig langar til að spyrja er hvort það sé ekki mikilvægt að við tryggjum einhvers konar sanngirni þegar kemur að þessum hópum sem er verið að afgreiða núna á ólíkan máta. Það er ein spurning mín.

Hin spurningin sem mér finnst líka mikilvægt að við veltum fyrir okkur er að hérna eru einstaklingar sem hafa mátt þola alveg hræðilega framkomu í sinn garð og ofbeldi og hafa þurft að díla við það alla ævi án nokkurs konar aðstoðar, þannig að það eitt og sér að greiða út sanngirnisbætur skiptir rosalega miklu máli. En hinn hlutinn er þessi sálfélagslega aðstoð sem þyrfti að koma inn í, þegar ríkið eða hið opinbera hefur valdið ofbeldi í lífi fólks, sem þyrfti að koma til og aðstoða með þann þátt. Hvernig náum við að taka utan um þá þjáningu sem hefur átt sér stað og aðstoða þessa einstaklinga að ná einhvers konar festu í lífinu og þátttöku í samfélaginu með einhvers konar sálfélagslegri aðstoð líka? Þetta er eitthvað sem ég hefði talið vera á ábyrgð okkar að aðstoða með en sé ekki að við séum að gera á neinn hátt.