154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég vil ítreka það að þessir tveir hópar sem hv. þingmaður nefnir hér, Hjalteyri og síðan Laugaland og Varpholt, hefur hvorugur fengið neina afgreiðslu sinna mála og fær ekki í raun og veru nema lagt sé fram einhvers konar frumvarp um heimild til greiðslu sanngirnisbóta. Niðurstaðan varð að við myndum leggja til þennan almenna ramma fremur en að fara í einstakar lagasetningar um einstök mál. Það er algerlega gild leið. En eins og ég segi, þetta er mín sannfæring eftir að hafa legið töluvert yfir þessu. Ég hef sjálf staðið í þessum stól fyrir allmörgum árum og sagt: Þetta frumvarp markar endalok þess, nú erum við búin að gera þetta allt upp. Ég hafði ekki rétt fyrir mér. Þannig að ég held að slíkur almennur rammi, ef við horfum til reynslu Norðmanna, sé mikilvægur því að það er voðalega erfitt að leggja fram tæmandi lista yfir mögulegar misgjörðir hins opinbera gagnvart börnum og fullorðnum. Ég nefndi hér áðan í framsögunni það mál sem er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis, um mögulega rannsókn á aðbúnaði fatlaðra einstaklinga sem dvöldu á stofnunum á vegum ríkisins eða af hálfu ríkisins.

Þetta frumvarp er svona atlaga að því að reyna að tryggja jafnræði. Ef það verður að lögum, og um það höfum við dómsmálaráðherra rætt, myndi málaflokkurinn færast yfir til forsætisráðuneytis á nýjan leik og það yrði haldið utan um þennan málaflokk þar, því að það hefur líka verið ruglandi fyrir þessa einstaklinga að málaflokkurinn hefur verið að færast á milli ráðuneyta. Við erum síðan, eins og ég segi, með aðrar stofnanir undir öðrum ráðuneytum sem eru að vinna skýrslur. Ég tel því að þetta muni gera kerfið skýrara og gagnsærra. En að sjálfsögðu er þetta mjög ný hugsun og þess vegna legg ég svo mikla áherslu á að það sé vandað til í þinglegri meðferð og virkilega kafað ofan í málið.