154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að mjög oft er það þannig hjá þeim sem hafa til að mynda leitað atbeina hins opinbera vegna skaða sem þeir hafa orðið fyrir vegna meðferðar opinberra aðila að það eru ekki aðilar sem eiga þess kost að leita til dómstóla því að þau brot eru löngu fyrnd. Þess vegna er eðlilegt að segja, og það hefur svo sem verið meginreglan, að ef svo er ekki þá er ekki óeðlilegt að gera því skóna að fólk geti leitað til dómstóla um önnur þau mál. Eins og ég fór yfir áðan þá segir hér:

„Niðurstöður og skýrslur um einstakar rannsóknir sem ráðist er í um illa meðferð eða ofbeldi gagnvart tilteknum hópi einstaklinga“ — það er ekkert sem útilokar að ráðist sé í þær rannsóknir, ég vil bara ítreka það hér aftur — „eru einnig gagn máls samkvæmt þessari málsgrein ef umsækjandi er hluti af þeim hópi sem slík sérstök rannsókn tekur til.“

En um leið getur það verið svo, sérstaklega ef viðkomandi einstaklingur er jafnvel vistaður í mjög litlu úrræði sem hefur ekki fengið sérstaka rannsókn á vegum Alþingis, svo dæmi sé tekið, að hann geti lagt fram gögn máli sínu til stuðnings við matsnefnd sanngirnisbóta, þar með talið læknisvottorð, vitnisburði einstaklinga, og það sé þá aflað gagna viðkomandi hjá stjórnvöldum og einkaaðilum sem tengjast málinu. Það er þannig, og það er m.a. ástæða þess að ég legg þennan almenna ramma til, að málin gætu örugglega verið óteljandi. Ég nefndi bara nokkur mál hér í ræðu minni þar sem rætt hefur verið um að ráðast í rannsóknir. Hér var rætt um Kleppjárnsreyki og ég nefni það mál sem er til meðferðar hjá velferðarnefnd. En það er mjög tímafrek og dýr leið og við erum að horfa til þess að mögulega geti fólk lagt fram gögn hjá matsnefnd sanngirnisbóta sem leggur á þau mat og vegur og metur hvort ástæða sé til að leggja til sanngirnisbætur fyrir þann einstakling.