154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

467. mál
[14:14]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 508 sem er 467. mál, um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er varðar leyfi til prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði. Frumvarpið er lagt fram til að styrkja samkeppnishæfni tæknifyrirtækja sem þjónusta skip með því að selja og setja nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað í skip hér á landi. Hingað til hefur raunin verið sú að ekki hefur verið mögulegt að láta fara fram prófanir á vinnslu- og veiðarfærabúnaði eftir uppsetningu hér á landi þegar um er að ræða erlend skip, eða íslensk skip sem selja til annarra landa og hafa ekki heimild til veiða hér á landi. Það hefur haft ákveðið óhagræði í för með sér, bæði fyrir þjónustuaðila og skipin, að ekki sé hægt að prófa búnaðinn við Íslandsstrendur.

Frumvarpið hefur verið unnið í matvælaráðuneytinu í samráði við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning með birtingu áforma og frumvarpsdraga í samráðsgátt stjórnvalda. Bæði Landhelgisgæslan og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi voru sammála um hvernig þessi breyting væri til bóta en bentu á tiltekin álitamál sem ráðuneyti mitt telur að unnt sé að útfæra í reglugerð og er farið yfir þau í greinargerð frumvarpsins.

Ég mun nú víkja nánar að einstökum þáttum frumvarpsins. Frumvarpið mælir fyrir um breytingu á 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, þess efnis að ráðherra verði heimilt, að fenginni umsókn, að veita skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands hafi búnaðurinn verið settur í skip hér á landi og nauðsynlegt geti talist að prófa virkni hans.

Mælt er fyrir um það í frumvarpinu að ef sjávarafli veiðist við prófanir skuli hann vera óverulegur og seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði á Íslandi fyrir sjávarafla og andvirði aflans renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.

Mælt er fyrir um að slíkar prófanir fari fram undir eftirliti Fiskistofu. Skal leyfishafi greiða kostnað sem leiðir af eftirlitinu. Jafnframt geti ráðherra kveðið á um nánari reglur um skilyrði, veitingu leyfa, kostnað og eftirlit í reglugerð.

Í þessu samhengi vil ég benda á að heimild sú sem þetta frumvarp snýr að varðar ekki fiskveiðistjórn í sjálfu sér heldur hliðargrein fiskveiða, sem er í raun þjónustustarfsemi á sviði tækni og nýsköpunar. Rétt er að finna þessari heimild stað í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem fyrir eru ákvæði um tímabundnar heimildir til veiðitilrauna og annarra vísindalegra rannsókna.

Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrána og ekki er talið að ákvæði frumvarpsins kalli á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, en mögulega verða óverulegar aukatekjur, sem renna þá í Verkefnasjóð sjávarútvegsins eins og áður greinir, auk þjónustugjalda fyrir eftirlit.

Þá eru líkur á því, eins og áður segir, að frumvarpið muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi og nýsköpun tæknifyrirtækja sem vinna að tæknibúnaði fyrir skip hér á landi. Þannig geti þau fyrirtæki sem eru að þjónusta skip með nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði látið fara fram prófanir á búnaðinum hér við land áður en skipin sigla utan, en það getur þurft að vinna í stillingum á búnaði og þess háttar til að virkni sé sem best.

Það er mikilvægt, virðulegur forseti, að fiskveiðiþjóð hafi öfluga þjónustustarfsemi sem styður við nýtingu auðlinda úr sjó og að sú starfsemi sé samkeppnishæf við sambærilega starfsemi í öðrum ríkjum. Við eigum að stuðla að því að hér geti þrifist fyrirtæki sem eru í fararbroddi á heimsvísu í þessari þróun, ekki síst í þróun veiðarfæra, og þetta frumvarp er liður í því.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir því þar sem nánar er fjallað um efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og hæstv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.