154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

467. mál
[14:25]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn hv. þingmanni andsvarið. Ég held að þetta séu allt saman gagnlegar ábendingar sem hér koma fram sem full ástæða er til að hv. atvinnuveganefnd taki til skoðunar. Í meginatriðum er hér um að ræða þá staðreynd sem raunar kemur líka fram í umsögnum þeirra aðila sem sendu umsagnir inn með frumvarpinu, að það megi gera ráð fyrir því að hér sé um að ræða takmarkað magn afla sem unnt sé að veiða með því að prófa búnað með þessum hætti, enda liggur fyrir að aflamark er takmarkað og þess vegna þarf að taka mið af slíku. Ég árétta það sem áður hefur komið fram, að ég tel að VS-sjóður sé góður vettvangur til að fara með það sem fellur til með þessum hætti en undirstrika jafnframt að hér er 1. umræða um málið og ég vænti þess að þingleg meðferð leiði í ljós svör við vangaveltum og spurningum sem hafa komið fram í máli hv. þingmanns. En ég vil kannski nefna það varðandi skilyrðin sem þarf að uppfylla, að þau munu koma fram í reglugerð byggt á þeim lagagrunni sem fyrir hendi er. Það er auðvitað mikilvægt að missa ekki sjónar af meginmarkmiðinu sem hér er undir; að auka nýsköpun í greininni, bæta umgengni um auðlindina, auka áherslu á umhverfissjónarmið og svo auðvitað líka hagkvæmni.