154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

útlendingar.

60. mál
[14:28]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, skipan kærunefndar. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason.

Í 1. gr. segir:

„Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:

a. 1.–3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðherra skipar, að fenginni tillögu Hæstaréttar, þrjá nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála og þrjá til vara. Formaður nefndarinnar skal skipaður í fullt starf til fimm ára að undangenginni auglýsingu samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nefndarmenn skulu allir uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara.

b. 4. og 5. mgr. falla brott.

c. 5. málsl. 6. mgr. orðast svo: Formaður velur staðgengil sinn til að gegna störfum sínum þegar formaður er forfallaður eða fjarstaddur.“

Og í 2. gr. segir:

„Lög þessi taka gildi 1. júní 2024.“

Ef ég fer aðeins yfir greinargerðina og rökstuðning fyrir þessu frumvarpi þá eru lagðar til breytingar á kærunefnd útlendingamála, sér í lagi skipan nefndarinnar. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að ráðherra skipi alls sjö nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála, þeirra á meðal formann og varaformann og fimm aðra nefndarmenn sem skulu ýmist tilnefndir af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands eða án tilnefningar. Samkvæmt lögunum eiga formaður og varaformaður einir að uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og skulu þeir skipaðir að fenginni umsögn hæfnisnefndar.

Kærunefnd útlendingamála á að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og úrskurðir hennar eru endanlegir gagnvart stjórnvöldum. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi segir nefndinni fyrir verkum og stjórnvöld geta ekki kært niðurstöður hennar til dómstóla. Þetta er valdamikil sjö manna nefnd og rekstur hennar á þessu ári kostar 273 millj. kr. Til að nefndin teljist sjálfstæð þurfa nefndarmenn að vera sjálfstæðir, hæfir og óháðir í störfum sínum, enda málefni sem nefndin fjallar um afar mikilvæg. Þess vegna þarf að gæta þess sérstaklega vel að hæfi nefndarmanna sé fullnægt. Flutningsmenn telja að með núverandi fyrirkomulagi sé ekki gætt nægilega vel að hlutleysi nefndarmanna. Meðal þeirra 15 samtaka sem eiga aðild að áðurnefndri Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem síðan aftur á fulltrúa í kærunefndinni, eru Íslandsdeild Amnesty International, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn á Íslandi, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin '78 og Siðmennt. Jafnréttisstofa hætti aðild árið 2021. Ég held að það sé óhætt að segja að þessir aðilar hafi að hluta til haft sig í frammi, t.d. í málflutningi þess efnis að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hefur verið synjað um hæli hér á landi fái engu að síður óskerta þjónustu hjá hinu opinbera sem er andstætt lögunum um útlendinga. Sum af þessum aðildarfélögum að Mannréttindaskrifstofu Íslands hafa sem sagt tjáð sig með þeim hætti opinberlega.

Samkvæmt stjórnsýslulögum má hlutdrægur nefndarmaður í stjórnsýslunefnd ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess máls sem hann telst eiga vera óhlutdrægur gagnvart. Með setu í kærunefnd útlendingamála er Mannréttindaskrifstofu Íslands fengið opinbert vald og það er töluvert vald. Þar með gilda öll sömu sjónarmið við val Mannréttindaskrifstofu Íslands á nefndarmönnum og endranær. Ef við tökum dæmi má geta þess að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins skipa dómara í Félagsdóm. Við úrlausn mála fara dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum. Það sama á að sjálfsögðu að gilda um kærunefnd útlendingamála. Á því virðist hafa orðið misbrestur og kærunefnd útlendingamála virðist, a.m.k. í ákveðnum úrskurði, túlka hugtakið flóttamaður rýmra en vilji Alþingis stóð til. Vilji Alþingis stóð að sjálfsögðu til þess að hugtakið væri skýrt með sama hætti og í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við framkvæmd annarra Evrópuríkja. Þessi ákveðna túlkun hafði síðan í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð og mikið óhagræði þegar kemur að t.d. sveitarfélögunum, álagi á sveitarfélögin. Ég er að tala um það þegar nefndin úrskurðar á sínum tíma að umsækjendur frá Venesúela um alþjóðlega vernd skuli fá hér fjögurra ára viðbótarvernd. Sá úrskurður er sérstakur og hann er andstæður við það sem t.d. Norðurlöndin hafa verið að úrskurða í málefnum umsækjenda frá Venesúela. Nú er rétt að geta þess að nefndin hefur fellt nýjan úrskurð þar sem breyting hefur orðið á þessu og þar sem fallið er frá því að veita þessa viðbótarvernd og staðfestur úrskurður Útlendingastofnunar um að synja um alþjóðlega vernd frá Venesúela, sem hefur haft heilmikil áhrif á þann fjölda Venesúelabúa sem hafa sótt hér um alþjóðlega vernd. Við þekkjum þá umræðu sem hefur farið fram um þetta ákveðna mál. Flutningsmenn frumvarps þessa telja því eðlilegra að nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála, sem fer eins og áður segir óneitanlega með umtalsvert vald, séu skipaðir af sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum í stað samtaka sem hafa beina hagsmuni af starfi nefndarinnar og, ég held að það sjái það allir, hafa tjáð sig með einhliða hætti um málaflokkinn og jafnvel pólitískum hætti. Í huga flutningsmanna er því mjög mikilvægt að á þessu verði gerð bragarbót. Það segir sig sjálft að í svo mikilvægum málaflokki sem útlendingamálin eru og vegna þess mikla valds sem kærunefnd útlendingamála hefur þá er sjálfsagt og eðlilegt að nefndarmenn uppfylli hæfisskilyrði til að gegna embætti héraðsdómara.

Eins og ég sagði hér áðan hefur verið töluverð umræða um þessa nefnd í kringum málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, einkum frá Venesúela. Það var ljóst þegar nefndin fellir þennan úrskurð sinn um að umsækjendur frá Venesúela skuli fá hér fjögurra ára viðbótarvernd — og hafa ber í huga að fjögurra ára viðbótarvernd í hælisleitendakerfinu er mjög mikil vernd og hún er ekki alls ekki sjálfsögð. Það þurfa mjög ríkar ástæður að liggja að baki því að veita fjögurra ára viðbótarvernd. Sem dæmi hafa þeir flóttamenn sem hafa komið hingað frá Úkraínu fengið eins árs mannúðarvernd og sama má segja um þá sem hafa komið frá Afganistan, þeir hafa einnig fengið eins árs mannúðarvernd þegar svo ber undir að þeir uppfylli þau skilyrði. Nú er t.d. staðan í Afganistan, og sérstaklega gagnvart konum, afar slæm og ég get sagt það hér að ég lauk í októbermánuði skýrslu sem ég gerði á vegum Evrópuráðsins um stöðu flóttamanna í Afganistan, skýrslu sem ég hef unnið að um nokkurt skeið og hún var samþykkt einróma á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í október, og það verður að segjast eins og er að stjórnvöld í Afganistan, talibanastjórnin, má nánast segja að sé í herferð eða stríði gegn konum í landinu. Það er gríðarlegur fólksflutningur frá Afganistan til nágrannaríkjanna. Það koma u.þ.b. 4.000 flóttamenn á dag að landamærum Írans til að óska eftir hæli og stór hluti þeirra er fjölskyldufólk, fjölskyldur með dætur sínar til að koma þeim til mennta, koma þeim í skóla, þar sem talibanar hafa nánast skorið niður alla menntun fyrir stúlkur. Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á þá framkomu í garð kvenna og stúlkna í Afganistan. Ég segi þetta hér í þessu samhengi vegna þess að það hefur verið litið svo á að veita þeim eins árs vernd þegar mér persónulega finnst öll rök mæla með því að konur eða stúlkur frá Afganistan skuli njóta fjögurra ára viðbótarverndar.

Það virðist sem nefndin hafi tekið í sínum ákvörðunum allt aðra stefnu gagnvart t.d. þessum hópi umsækjenda sem ég nefndi hér, frá Venesúela, heldur en Norðurlöndin og önnur ríki Evrópu. Noregur veitti engum fjögurra ára vernd sem sótti um frá Venesúela og það sama gilti í Danmörku, Svíþjóð vísaði meiri hluta umsókna frá Venesúela frá og Spánn hafnaði á síðasta ári rúmlega 10.000 umsóknum frá Venesúela. Ég óskaði eftir því hér fyrir ekki svo löngu síðan að kærunefnd útlendingamála kæmi fyrir allsherjar- og menntamálanefnd til að ræða úrskurð sinn gagnvart Venesúela, sem þeir hafa síðan fallið frá og breytt svo að það sé tekið fram. Ég spurði sérstaklega að því hvort kærunefndin hefði ekki kynnt sér á þeim tíma skýrslu Noregs um ástandið í Venesúela, skýrslu kærunefndar útlendingamála í Noregi sem komst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið grundvöllur fyrir fjögurra ára vernd. Kærunefndin hér hefur eflaust kynnt sér eitthvað þessa skýrslu en meginmálið er kannski það að Noregur sendi sérstaka nefnd til Venesúela til að kynna sér aðstæður. Það gerði íslenska kærunefndin ekki en komst hins vegar að annarri niðurstöðu en norska kærunefndin.

Ég trúi því að verði frumvarp þetta að lögum muni það auka skilvirkni í þessum málaflokki. Kærunefndin tilkynnti, þegar hún var með til úrlausnar úrskurð Útlendingastofnunar þar sem beiðni um alþjóðlega vernd var hafnað, að hún þyrfti þrjá mánuði til að fjalla um málið og það gæti haft fordæmi fyrir þá sem á eftir kæmu. Nefndin tók það fram að hún þyrfti þrjá mánuði til þess að ákveða sig en hún var í raun og veru hálft ár, eða sex mánuði, að komast að niðurstöðu. Það vantar því skilvirkni í þessa nefnd og þess vegna tel ég að þetta sé góð tillaga hvað það varðar að nefndin verði skilvirkari í störfum sínum.

Það er að sjálfsögðu mikill ábyrgðarhluti að sitja í þessari nefnd. Þessi nefnd fjallar náttúrlega um aðstæður fólks sem sumt hvert kemur úr mjög erfiðum aðstæðum, hefur sætt ofsóknum eða jafnvel líflátshótunum, en svo eru líka umsækjendur sem eru í raun og veru bara að leita sér að betra lífi og sem eru kannski flokkaðir sem svokallaðar efnahagslegir flóttamenn. Nefndin hefur náttúrlega framtíð þessa fólks í höndum sér, ef svo má segja, og hefur þannig heilmikil völd, svo að ekki sé talað um það að stjórnvöld geta ekki, eins og þetta fyrirkomulag er núna, áfrýjað niðurstöðu þessarar nefndar. Auk þess hlýtur að þurfa að leggja mat á áhrif ákvörðunar á hverjum tíma. Ákvörðun kærunefndarinnar í málefnum Venesúela hafði gríðarleg áhrif á sveitarfélögin í landinu. Það er mikið álag sem hefur fallið á sveitarfélögin, sérstaklega hér á stór-höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesin nefni ég sem dæmi sérstaklega, Reykjanesbæ, og Hafnarfjörð og Reykjavík. Það er bara gríðarlega mikilvægt að það sé vandað til verka í störfum þessarar nefndar.

Auðvitað spyr maður sig að því hvort þetta sé í raun og veru rétta fyrirkomulagið. Það er ákveðið í lögunum 2016 að fara þessa leið, að vera með sérstaka nefnd. Áður voru þessir úrskurðir í höndum dómsmálaráðuneytisins. Það má segja að í raun og veru sé Alþingi að útvista töluverðum völdum, myndi ég segja, með þeirri ákvörðun sinni að setja þessa nefnd á laggirnar — og hvort það sé rétta leiðin. Hér eru nefndarmenn sem þurfa ekki að standa skil gagnvart kjósendum. Þetta eru embættismenn sem hafa þessi miklu völd. Þess vegna er afar mikilvægt í mínum huga, og okkar flutningsmanna, að þeir uppfylli skilyrði til að gegna embætti héraðsdómara og hafi ekki þessa tengingu sem nefndin hefur með því að í henni sitja fulltrúar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Það tel ég vera óheppilegt og að það geti haft þau áhrif að þar sem samtök eru undir, t.d. Mannréttindaskrifstofa Íslands, geti þau þá haft áhrif á ákvörðun viðkomandi. Ég er alls ekki að fullyrða það hér en þarna eru bara ákveðnar tengingar sem ég tel að séu óheppilegar. Út á það gengur þetta frumvarp, að fækka nefndarmönnum úr sjö í þrjá. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir þennan málaflokk og ég vona að frumvarpið fái góða umfjöllun í nefndinni og að sjálfsögðu mun nefndin kalla eftir umsögnum og gestum o.s.frv. Þá væri hægt að ræða öll sjónarmið sem koma fram hvað þetta frumvarp varðar.

Að þessu sögðu, herra forseti, þá vísa ég málinu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.