154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

útlendingar.

60. mál
[14:50]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil segja, af því að hv. þingmaður er svona ýja að því að niðurstaða nefndarinnar í ákveðnu máli hafi haft þau áhrif að þetta frumvarp er komið fram og að það séu einhvers konar pólitísk viðbrögð við því — ég held að niðurstaðan í því máli, ef við horfum aftur til Venesúela, hafi einmitt opinberað vankantana á þessu fyrirkomulagi. Það er ekki verið að tala hér um að leggja nefndina niður. Það er bara verið að tala um að breyta samsetningu nefndarinnar. Þetta kemur til með að kosta ríkissjóð minna vegna þess að það fækkar nefndarmönnum úr sjö í þrjá og lagt er til að allir nefndarmenn hafi þessa menntun og uppfylli þessi hæfisskilyrði sem eru mjög mikilvæg vegna þess að nefndin er að fjalla um mjög mikilvæg mál. Ég held bara að þetta hafi ekki verið hugsað alla leið þegar þetta frumvarp var sett fram á sínum tíma þar sem lagt er til að hafa þessa nefndarmenn, að hafa þessa tengingu við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands — að menn hafi ekki hugsað það alla leið.

Það hefur náttúrlega margt breyst í þessum málaflokki á þessum tíma og hann er síbreytilegur eins og við þekkjum og nú er gríðarlegur fjöldi sem sækir um. En varðandi það að fjárhagslegir þættir hafi áhrif þá vil ég bara segja það að það hefur áhrif og auðvitað eiga alþingismenn að vera vakandi yfir því þegar kærunefnd útlendingamála hér á Íslandi tekur allt aðra afstöðu en kærunefndir á Norðurlöndum og fleiri löndum. Þá eiga náttúrlega þingmenn að spyrja: Bíddu við, hvers vegna? Og það er það sem ég gerði þegar ég óskaði eftir að kærunefndin kæmi fyrir allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að það þarf að svara því. (Forseti hringir.) Í því felst jú kostnaður þegar við erum að gera eitthvað öðruvísi en Norðurlöndin (Forseti hringir.) sem eru búin að kynna sér, eins og Noregur, stöðuna í Venesúela, svo að dæmi sé tekið. (Forseti hringir.) Og niðurstaðan hér er allt önnur, þannig að auðvitað hefur þetta áhrif.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á ræðutímann.)