154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

útlendingar.

60. mál
[14:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir svarið. Það er náttúrlega hægt að horfa á þetta mál frá mörgum sjónarhornum en ég er kannski svolítið að líta til þess að mér finnst að úrskurðir dómstóla og sjálfstæðra kærunefnda verði að vera byggðir á lögum algjörlega óháð því hvað það geti mögulega kostað samfélagið. Það er þá, eins og þingmaður benti reyndar réttilega á, auðvitað Alþingis að tryggja að lagaumhverfið sé með þeim hætti og að kerfið sé að öðru leyti með þeim hætti að það sé ekki of kostnaðarsamt. En það er náttúrlega alltaf verið að benda á að það sem menn í Sjálfstæðisflokknum hafa kallað óstjórn í útlendingamálum er auðvitað svolítið að gerast á vakt þess flokks því að sá flokkur hefur farið með dómsmálaráðuneytið býsna lengi.

En það sem mig langaði að spyrja um í seinna andsvarinu er kannski frekar þetta: Nú er það þannig að það blasir við að kærunefndin er búin að breyta afstöðu sinni gagnvart fólki frá Venesúela, sem þýðir að fólk fær ekki lengur sjálfkrafa viðbótarvernd. Við vitum ekki alveg nákvæmlega hver afleiðingin af því verður en við vitum þó að það þýðir sjálfkrafa að margfalt færri frá Venesúela fá hér einhvers konar vernd. Þannig að sú staða er að breytast alveg gjörsamlega gagnvart þeim hópi sem var fjölmennastur í hópi þeirra sem hingað leita. Svo er nú kannski vonast til þess að ástandið í stríðinu í Úkraínu fari að breytast og að það dragi úr því að fólk frá Úkraínu þurfi að flýja heimkynni sín, sem myndi svo aftur létta á kerfinu hérna heima.

Við í Viðreisn höfum verið að tala fyrir því að flokkarnir, allir þingflokkar, komi sér saman um einhvers konar stefnu sem allir geta verið sáttari við. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það gæti ekki verið ráð að bíða með eins og t.d. þetta frumvarp sem hér er verið að leggja fram og kannski aðrar breytingar á útlendingalögunum, bæði á meðan þingflokkar ráða sínum ráðum um að koma á einhvers konar sátt í þessum málaflokki og líka vegna þess að landslagið gagnvart því fólki sem hingað leitar, sá fjöldi sem er núna, það er ekkert endilega sjálfgefið að það verði í framtíðinni með þessum breytta úrskurði kærunefndarinnar (Forseti hringir.) og mögulega breyttum forsendum í Úkraínu.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á ræðutíma.)