154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

útlendingar.

60. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég vil aðeins koma fyrst inn á það sem hv. þingmaður talaði um varðandi óstjórn í útlendingamálum, að það skrifaðist á Sjálfstæðisflokkinn sem hafi verið með dómsmálaráðuneytið lengi. Ég er ósammála þessu og ég hef meira að segja skrifað grein um það að óstjórnin í þessum málaflokki sem hefur verið til staðar — við erum hins vegar aðeins að sjá fram á breytta og betri vegferð í þeim efnum en sú óstjórn hefur að mínum dómi einmitt skrifast á kærunefnd útlendingamála vegna þess að hún tekur afstöðu sem er þvert á það sem er að gerast í kringum okkur; í Noregi, í Skandinavíu og fleiri löndum og nánast öllum löndum Evrópu. Það er nú einu sinni þannig í þessum málaflokki að menn reyna að finna þær smugur sem eru fyrir hendi og það er nákvæmlega það sem gerðist í málefnum Venesúela. Þær bárust hratt fréttirnar til Venesúela um að Ísland hefði aðrar reglur en Norðurlöndin, mildari reglur og væri að veita fjögurra ára vernd sem þýddi sömu réttindi og Íslendingar í velferðarkerfinu. Auðvitað vissi fólk þetta í Venesúela. Og þegar það lagði af stað frá Venesúela til Íslands þá vissi það að það fengi strax fjögurra ára vernd og sömu réttindi og Íslendingar í velferðarkerfinu. Þannig að þarna finnst mér hafa bara augljóslega legið við að kærunefnd útlendingamála, sem er algerlega sjálfstæð, lýtur ekki lögsögu eða valdi Alþingis eða ráðherra, hafi valdið því að hingað streymdi óhemju mikill fjöldi af fólki frá Venesúela, sem er andstætt því sem er gerast í kringum okkur. Þetta olli miklu álagi á sveitarfélögin, á húsnæðismarkaðinn o.s.frv.

En svona í lokin vil ég segja, af því að hv. þingmaður kallar eftir því hvar ég stend gagnvart svona samstöðu um að ræða þennan málaflokk, að ég er að sjálfsögðu ekki á móti því að ræða framtíð þessa málaflokks. Hann er síbreytilegur. En ég sé hins vegar að það eru bara heilmiklar áherslumunur. Viðreisn hefur talað fyrir mjög opnum landamærum. Við gerum það ekki þannig að ég held að það sé mjög langt þarna á milli. En að sjálfsögðu er bara eðlilegt að sú umræða fari fram hér í þingsal hvað menn sjá fyrir sér og svo þurfa menn að kynna það fyrir þjóðinni (Forseti hringir.) hvar þeir vilja standa í þessum málaflokki og það er kannski mikilvægast hvað þjóðin vill í þessum efnum.