154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:17]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Atburðir síðustu daga minna okkur á smæð okkar gagnvart náttúruöflunum og mikilvægi þess að við stöndum saman þegar á reynir. Hugur okkar er hjá íbúum Grindavíkur sem hafa mátt þola miklar raunir á undanförnum vikum og mikil áföll á síðustu dögum. Óvissan hjá þeim um framtíðina er algjör. Enginn getur svarað því hvað muni gerast, hvort og hvar muni gjósa, hvort mögulegt verði að snúa aftur heim, snúa til fyrra lífs, um afdrif eigna, vinnustaða, skóla, samfélags. Viðreisn styður þá nauðsynlegu og mikilvægu löggjöf sem hér er rætt um. Hún tekur á vörnum lykilinnviða og skapar ramma fyrir viðbrögð við yfirvofandi hættu. Það er mikilvægt. Þetta hlýtur þó aðeins að vera fyrsta skrefið. Við hljótum að ræða frekari skref, sérstaklega til að draga úr óvissu íbúa Grindavíkur. Við megum okkar lítils gagnvart náttúruöflunum en við getum lofað stuðningi, lofað að deila áhættu með íbúum Grindavíkur, lofað að þeirra tjón sé tjón okkar allra. Við getum þannig borið með þeim hluta byrðanna sem náttúruöflin hafa lagt þeim á herðar, sagt skýrt og greinilega þannig að enginn vafi sé í þeirra huga hvaða aðstoð þeir geti gert ráð fyrir að njóta. Óumflýjanlega munu neikvæðar afleiðingar þeirra atburða sem við verðum vitni að fyrst og fremst bitna á Grindvíkingum. Geta okkar til að deila með þeim byrðum er takmörkuð en einmitt þess vegna þurfum við að vera skýr með hvernig samfélagið mun styðja þá ef allt fer á versta veg. Viðreisn kallar því eftir því að hugað sé að lausnum um hvernig best megi létta undir með íbúum Grindavíkur, hvernig draga megi úr óvissu þeirra og áhyggjum svo þeir geti einbeitt sér að aðsteðjandi vandamálum. Viðbrögð almennings við neyð Grindvíkinga sýna að þetta er viðhorf íslensku þjóðarinnar. Þar ræður samhugur. Hér á sá samhugur einnig ráða för.