154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[22:44]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Álitið liggur fyrir. Píratar styðja þetta frumvarp. Við stöndum þétt við bakið á Grindvíkingum og styðjum heils hugar þá vinnu sem farin er af stað við að reisa varnarmannvirki til að reyna að lágmarka skaða gagnvart Grindavík, gagnvart orkuverinu í Svartsengi sem sér öllu Reykjanesi fyrir heitu vatni og rafmagni. Píratar munu því greiða atkvæði með þessu frumvarpi hér á eftir og liðka þannig fyrir að framkvæmdir geti haldið áfram eins hratt og hægt er á þessum hættutímum.

Forseti. Við höfum ákveðnar athugasemdir varðandi frumvarpið sem við gerum grein fyrir í nefndarálitinu og leggjum til breytingar varðandi hvaðan fjármagnið til framkvæmdanna eigi að koma. En við látum það ekki standa í vegi fyrir því að hægt sé að grípa til nauðsynlegra varna fyrir grunninnviði á Reykjanesi enda styðjum við markmið frumvarpsins af heilum hug.