154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

sjóður fyrir fólk í neyð.

[13:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við vorum í gær að samþykkja neyðarlög um uppbyggingu varnargarða í Svartsengi til að verja einkafyrirtæki gegn hugsanlegu eldgosi með tilheyrandi hraunflóði. Þarna er um fjársterk fyrirtæki að ræða sem hafa greitt sér milljarða í arð en hitaveita fyrir 30.000 íbúa á Suðurnesjum er það sem þarf að bjarga. Við í Flokki fólksins vorum á móti því að ný skattheimta væri sett á heimilin í landinu vegna þessa og töldum að frekar ætti að nota milljarðatugi í varasjóðnum til þess en yfir 30 milljarðar eru í honum nú þegar og eru t.d. ætlaðir í svona hamfarir. Við höfum séð til þess í Covid-bylgjunni og öðrum áföllum að tekið væri á vanda fyrirtækja með ýmsum ráðum og þá hefur fjármagn til hjálpar fyrirtækjum ekki skort.

En hvað með fólkið sem er í neyð? Er til sjóður handa þeim til að sækja í? Hvað er verið að gera fyrir allt það fólk sem keypti íbúð á lágvaxtalandinu Íslandi og borgar ekki lengur 200.000 kr. á mánuði heldur núna 400.000 kr. á mánuði? Hvað er ríkisstjórnin að gera fyrir fjölskyldur sem þurfa að bíða í löngum röðum með börn sín eftir mat hjá hjálparstofnunum? Hvað er verið að gera fyrir fátækt fólk sem hefur ekki efni á að fara til tannlæknis og bryður verkjalyf heima? Hvað er verið að gera fyrir sárafátækt fólk sem á ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum? Hvað er verið að gera fyrir sárþjáð fólk sem er rúmfast heima vegna þess að það hefur ekki efni á fara í sjúkraþjálfun? Hvers vegna er ekki hægt að koma á sjóði sem veitir styrki til fólks sem er í neyð eins og hægt er að gera fyrir fyrirtæki sem græða á tá og fingri? Eiga ekki allir að vera jafnir fyrir lögum og gilda ekki mannréttindi og jafnrétti fyrir alla? Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé hægt að koma strax á sjóði sem hjálpar fátæku fólki, sárþjáðu fólki sem er í neyð.