154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

sjóður fyrir fólk í neyð.

[13:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni þessa fyrirspurn. Ég vil nú byrja á því að ítreka það, vegna þess að það kemur fram hjá hv. þingmanni að hér hafi verið veitt heimild til þess að reisa varnargarða fyrir einkafyrirtæki; ef hv. þingmaður er að vitna til þess að HS orka er í einkaeigu þá getum við svo sannarlega rætt um það hvort slík fyrirtæki eigi ekki betur heima í opinberri eigu. Það er mín skoðun. En ég kom ekki að þessari ákvörðun. Það breytir því ekki að þetta fyrirtæki sér 30.000 manna samfélagi fyrir gríðarlega mikilvægum innviðum. Og ég ætla bara að fá að ítreka það hér að 30.000 manna samfélag án hitaveitu, án rafmagns — það væri bara einfaldlega mjög alvarlegt ef stjórnvöld og Alþingi tækju ekki á því að gera það sem þau geta til að verja slíka innviði óháð eignarhaldi. Svo getum við deilt um eignarhaldið og ég hef mínar skoðanir á því og allir hér í þessum sal þekkja hana. En þetta er okkar skylda gagnvart íbúum á svæðinu.

Ég fór síðan yfir það hér áðan í svari við fyrirspurn hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur að að sjálfsögðu er það forgangsmál stjórnvalda að tryggja afkomu Grindvíkinga. Að sjálfsögðu er það stórmál þegar þessir íbúar sem ekki bara, eins og ég sagði áðan, hafa upplifað það að þurfa að rýma heimili sín með nánast engum fyrirvara, búa við það að þau heimili hafa jafnvel orðið fyrir miklu tjóni, hafa engan tíma haft til að ná í sitt innbú og sín verðmæti, geta aukinheldur ekki mætt til starfa. Þannig að að sjálfsögðu er það forgangsmál að tryggja afkomu íbúa. Í öllum okkar aðgerðum setjum við fólkið í forgang, en það liggur líka fyrir að hitaveita og rafmagn þjónar fólkinu á Suðurnesjum. Þess vegna var verið að veita þessa heimild og raunar á hún ekki bara við um varnargarða við orkuverið heldur einnig varnargarða við byggðina í Grindavík ef þeir geta dugað til þess að verja þá byggð.