154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

framlag fyrirtækja til byggingar varnargarðs.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað þannig að óvissan er enn þá mjög mikil og tjónið á svæðinu er mjög mikið. Við erum með mikið tjón á fasteignum sem eru tryggðar hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Við erum með mikið tjón á öðrum innviðum sem liggja hjá sveitarfélaginu. Ég er einfaldlega bara að tala um göturnar í Grindavík og annað slíkt. En það formlega samtal sem hefur átt sér stað er í raun samtal við Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna, bæði hina almennu og Verkalýðsfélag Grindavíkur, um að það sé okkar sameiginlega verkefni að tryggja afkomu fólksins í Grindavík. Það er forgangsverkefni núna. Ég vil hins vegar segja að það blasir auðvitað við að kostnaðurinn við þennan blessaða varnargarð sem við ræddum í gær er mínimalískur miðað við þann kostnað sem blasir við okkur vegna þess tjóns sem hefur orðið á svæðinu. Það er því ágætt að við séum öll meðvituð um það og auðvitað skiptir miklu að við leggjum öll okkar af mörkum í því og að sjálfsögðu fyrirtækin líka.