154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

viðbrögð við náttúruvá á Reykjanesi.

[13:59]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Nokkuð almenn samstaða er meðal jarðfræðinga um að sú atburðarás sem hófst með jarðskjálftahrinu snemma árs 2021 og endaði með gosi í Geldingadölum hafi verið upphafið að stærra ferli eldvirkni á Reykjanesskaga. Rannsóknir sýna að eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga eiga sér sögu þar sem löng tímabil lítillar virkni og stutt tímabil virkni skiptast á, stutt er hér í jarðfræðilegri merkingu; nokkurra áratuga. Gjarnan hefjast lotur virkni í einu kerfi og standa í nokkra áratugi, síðan kemur hlé áður en virkni tekur sig upp í því næsta. Síðustu lotu slíkrar virkni lauk á 13. öld. Saga kerfisins bendir þannig til að upphaf eldsumbrota á Reykjanesi merki að langt tímabil umbrota sé að hefjast. Sú hörmulegu atburðarás sem við höfum mátt fylgjast með í Grindavík er þannig dæmi um það sem gerst getur þegar þessi reginöfl vakna. Við sjáum hve gríðarleg samfélagsleg áhrif eldsumbrota á Reykjanesi geta orðið. Reykjanes er þéttbýlt og þar er mikið af ómissandi innviðum. Ógnin sem jarðhræringar og eldgos skapa er því mikil. Okkur er einnig í fersku minni Vestmannaeyjagosið fyrir einungis hálfri öld. Við munum áhrif þess á samfélagið í Vestmannaeyjum og líf Vestmannaeyinga. Við höfum einnig eftir það reynslu af því hvað gera þarf við slíkar aðstæður og hvernig þarf að forgangsraða. Við okkur blasir nú neyð íbúa Grindavíkur sem orðið hafa að yfirgefa heimili sín og óvíst er hvenær þeir geta snúið aftur heim.

Ég vil spyrja hæstv. innviðaráðherra til hvaða aðgerða var gripið þegar ljóst var fyrir tveimur árum síðan að sennilega væri hafin ný lota eldsumbrota á Reykjanesi og hvaða áætlanir liggja fyrir hvað varðar viðbrögð við þeim.