154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

öflun grænnar orku.

[14:09]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni bæði fyrir fyrirspurnina og sömuleiðis áhuga á þessum málum. Betra væri ef það væru fleiri á sama stað. Hv. þingmaður fer aðeins yfir stöðuna og staðan er þessi: Við höfum gert afskaplega lítið í að búa til græna raforku síðustu 15 ár en ástandið er miklu verra þegar kemur að hitaveitunni. Skýrsla sem ég lét ÍSOR, Íslenskar orkurannsóknir, gera sýndi fram á það að tveir þriðju hitaveitna í landinu horfa fram á miklar áskoranir og jafnvel vanda. Reyndar þegar við erum að horfa á þessa gríðarlega alvarlegu stöðu núna á Reykjanesi, og við stöndum öll með Grindvíkingum og íbúum þessa svæðis, þá höfum við náttúrlega áhyggjur af því hvað gæti gerst ofan á allt annað ef það yrði alvarleg truflun, jafnvel stöðvun, í Svartsengi. Það hefði gríðarlega alvarleg áhrif á allt svæðið ef hitaveitan færi út, það væri gríðarlegt áfall, en líka, þó svo að raforkan sé ekki mikið í því stóra samhengi, þá er það eins og hv. þingmaður vísar til, að við höfum gert lítið á síðustu 15 árum og það er aukin eftirspurn eftir grænni orku. Það er ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á það, þó að það eigi auðvitað alltaf vera til staðar, og við erum að flýta okkur með það, við erum komin með frumvarp til þingsins og breytingar á því á leiðinni frá ráðuneytinu fyrir hv. þingnefnd, um að hægt sé að forgangsraða fyrir heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki. Auðvitað vonumst við til að það gerist ekki.

Ég fer í seinna andsvari mínu yfir það hvað við erum búin að gera af því að við erum sem betur fer búin að gera mikið á þessu kjörtímabili. En betur má ef duga skal og mikilvægt að hv. Alþingi taki vel í þau fjölmörgu þingmál sem snerta græna orkuöflun sem eru bæði komin inn í þingið og á leiðinni inn í þingið á þessum þingvetri.