154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

öflun grænnar orku.

[14:12]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það sem búið er að gera núna á þessu kjörtímabili er að það er búið að samþykkja rammaáætlun í fyrsta skipti í níu ár og hún á ekki að koma sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Aflaukningarfrumvarpið, sem er stærsta einföldunarfrumvarp sem hefur orðið að lögum, er komið í gegn, einnig varmadælufrumvarpið sem hjálpar okkur að spara orku. Það er búið að efla Orkusjóð. Við erum að fara í fyrsta átak í jarðhitaleit frá því á síðustu öld, það er hafið. Suðurnesjalína 2 er sömuleiðis loksins komin á rekspöl. Við erum að sameina stofnanir — vonandi fæ ég að tala fyrir frumvarpi hér á eftir — og einfalda leyfisveitingaferla og erum að gera það á fleiri sviðum en þessu. Við erum að koma með fjórða áfanga rammaáætlunar inn í þingið. Raforkuöryggisfrumvarpið, við erum að koma núna með frumvarp sem snýr að einföldun þegar kemur að vindorkunni, tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga, kerfisáætlun er að koma og þetta er alls ekki tæmandi upptalning.

Við erum búin að gera mikið og við höldum áfram. En nú reynir í vetur (Forseti hringir.) á hv. þingið. Hvernig mun hv. þingið taka á þessum málum? (Forseti hringir.) Við getum gert okkar en hv. Alþingi þarf að klára þau mál sem hér koma inn og svo þurfa bæði fyrirtæki (Forseti hringir.) að nýta það sem er í nýtingarflokki og eftirlitsstofnanirnar að sinna sínu hlutverki.