154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:23]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra kærlega fyrir ágæta og góða yfirferð og fyrir að sjá okkur þingheimi sem og almenningi fyrir mikilvægum upplýsingum á óvissutímum sem þessum. Eins og ráðherra kom svo ágætlega inn á í yfirferð sinni er ekkert verra en nákvæmlega þetta, óvissan. Ég hef verið í samtölum við íbúa Grindavíkur í dag sem mörg hver börðust í bökkum við að bjarga verðmætum sínum og tilfinningalegum fjársjóðum, kveðja heimili sín og aleigu eftir því sem þau best vita. Það eru fjölmargar spurningar sem brenna á almenningi og hugurinn fer vissulega á flug. Fólk berst ekki bara við tilhugsunina um fjárhagslegt óöryggi og algera óvissu að því leyti heldur er sú tilhugsun einna verst að fótfestan sé hreinlega farin. Hérna hefur nefnilega afkomuöryggi verið rætt í óundirbúnum fyrirspurnum í dag og er því nærtækt í þessu samhengi að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um það hvenær og hvort það hreinlega liggi fyrir. Við sjáum fyrir endann á gerð varnargarðanna við Svartsengi og við vitum það að varnargarðar skipta gríðarlegu máli. Þeir sönnuðu sig svo sannarlega við Kröfluvirkjun, í Vestmannaeyjum á sínum tíma þar sem þeir t.d. tryggðu höfnina í Vestmannaeyjum. Því spyr ég hvort það hafi farið fram umræða um það hvort það eigi að huga að gerð varnargarða fyrir sjálfa Grindavík, þ.e. bæjarstæðið sjálft.