154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikið álag á kerfið okkar eins og kom fram í ræðu minni hér áðan. Eins og einnig kom fram í ræðu minni getum við verið svo stolt af almannavarnakerfinu okkar. Við eigum eitt besta almannavarnakerfi í heimi og ég er ekki viss um að allir Íslendingar geri sér grein fyrir því. Það helgast kannski af því að við búum í landi náttúruhamfara. Landið okkar er sífellt að kasta í okkur mjög erfiðum og krefjandi verkefnum sem okkur hefur á sögulegum tíma gengið vel að vinna úr og standa saman. Ég efast ekki um það eitt augnablik að við munum fara í gegnum þetta og við getum tekist á við þetta. En það er ljóst að við horfum fram á langan tíma eldsumbrota og jarðhræringa á Reykjanesi þannig að álagið sem núna er verður viðvarandi í langan tíma. Því er mjög brýnt að styrkja almannavarnakerfið hér á landi.