154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir okkur Sjálfstæðismenn sem viljum lækka skatta og minnka álögur á fólk og fyrirtæki þá er það ekkert léttvægt að auka skattheimtu á fólk og ég tek því ekki léttvægt. Við erum í stórkostlegum hamförum þar sem tjón nú þegar hleypur á milljörðum og sú vörn sem við höfum ákveðið að ráðast í til að verja orkuverið — ef hún heldur þá komum við í veg fyrir svo stórkostlega stórt tjón sem hugsanlega gæti orðið, sem myndi lenda á ríkissjóði og íþyngja honum verulega. Kostnaður við svona framkvæmdir eru miklar og við getum aldrei annað en tekið þær byrðar, öll þjóðin.