154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Miklar skemmdir hafa nú þegar orðið í Grindavík, bæði á húsum í bænum og á innviðum bæjarins, og enn eru miklar líkur á gosi. Í slíkum aðstæðum er samtakamátturinn mikilvægur og það er ómetanlegt að finna þann samhug sem Grindvíkingum er sýndur. Samfylkingin mun leggja stjórnvöldum lið í að virkja samtrygginguna til stuðnings Grindvíkingum og öðrum sem kunna að verða fyrir tjóni. Okkur hefur farnast best þegar við treystum á okkar besta fólk á sviði vísinda og almannavarna. Við búum við öflugar almannavarnir sem við getum treyst. Á sama tíma og ég sendi Grindvíkingum mínar allra bestu kveðjur vil ég þakka þeim viðbragðsaðilum, vísindamönnum, heimamönnum, viðgerðarmönnum, og fleiri mætti nefna, sem hafa staðið vaktina dag og nótt vegna ástandsins. Hversu vel það gekk bæði að rýma bæinn og svo hvernig gengið hefur að hleypa íbúum Grindavíkur til að sækja verðmætar eigur sínar, sýnir okkur hversu framúrskarandi okkar fólk er.

Ég er ánægð með að hæstv. dómsmálaráðherra hafi hafið undirbúning við uppbyggingu varnargarða fyrir helgi og að hefjast eigi handa í dag. Mikilvægt er að nýta tímann vel í fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er traustvekjandi að vita að Keflavíkurflugvöllur sé ekki í hættu vegna hraungoss, jafnvel þó að Suðurnesin verði rafmagns- og vatnslaus. Varaafl er á staðnum og skipulag um mönnun einnig til reiðu. Hins vegar er önnur sviðsmynd uppi verði gosið í sjó með tilheyrandi öskufalli. Þá yrði stærra svæði en Suðurnesin undir hjá viðbragðsaðilum. Starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar mun ekki heldur raskast. Þar er einnig nægt varaafl og skipulag starfsstöðva heilbrigðisstarfsfólks tilbúið.

Ég hvet stjórnvöld til þverpólitísks samtals um aðgerðir, hvort sem þær eru efnahagslegar eða félagslegar, varði vinnumarkaðinn, fyrirtæki eða heimili Grindvíkinga. Verðmætin eru ekki aðeins í fasteignum og fyrirtækjum heldur ekki síður í fólkinu sjálfu, í listum og menningu. Reyndar tengist efnahagur félagslegri stöðu og andlegri og líkamlegri heilsu. Rauði krossinn á Íslandi gefur út góð ráð sem varða líðan í því ástandi sem Grindvíkingar búa við. Ég hvet alla þá sem hafa áhyggjur af sinni eigin líðan, barna sinna eða annarra til að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Einnig er netspjallið alltaf opið á 1717.is.

Þegar búið er við neyðarástand líkt og Grindvíkingar gera nú má búast við að því fylgi tilfinningalegt uppnám. Þetta er í raun ólýsanlegt áfall. Það er óþægilegt að finna fyrir vanmætti gagnvart náttúrunni, óvissan tekur á og það er mikilvægt að huga að líðan sinni og þeirra sem næst manni standa. Það þarf einnig að huga að líðan lykilfólks í almannavörnum; björgunarsveitar, lögreglu og þeirra sem vakta mikilvæga innviði. Þau þurfa afleysingu og hvíld. Ef til vill þurfa stjórnvöld að taka fleiri ákvarðanir með hraði varðandi Reykjanesskaga til að verja bæði innviði og heimili fólks. Við í Samfylkingunni munum leggja ríkisstjórninni lið ef til þess kemur.

Ég vil hvetja Suðurnesjamenn til að kynna sér upplýsingar um Náttúruhamfaratryggingu Íslands á vefnum Ísland.is. Fólk þarf að kynna sér hvað tryggt er með hamfaratryggingum og hvað ekki, hvað telst til beinna tjóna eða óbeinna og hvaða tryggingar grípa við mismunandi tjón og aðstæður. Það er ekki of seint fyrir Suðurnesjamenn utan neyðarsvæðisins að yfirfara tryggingar sínar. Á íbúafundi í Reykjanesbæ á dögunum var upplýst að ef Svartsengi lokast og hitaveitan verður óvirk geta lagnir í húsum sprungið í frosti, og það tjón ber húseigandinn. Þess vegna þarf fólk að kynna sér hvað hægt er að gera til að fyrirbyggja tjón við slíkar aðstæður. Það er sannarlega þörf á bakvarðasveit iðnaðarmanna sem gætu komið til hjálpar.

Nýtum reynslu af öðrum áföllum og aðgerðum. Rifjum upp hvað gekk vel og hvað hefði betur mátt fara þegar ákvarðanir voru teknar, svo sem vegna Vestmannaeyjagossins, afleiðinga skriðufalla í Seyðisfirði og Covid-aðgerða. Það þarf að koma á stöðugleika fjölskyldulífs eins og hægt er með tryggu húsnæði, frysta lán án tilkostnaðar fyrir Grindvíkinga, greiða lokunarstyrki til fyrirtækja og sjá til þess að ráðningarsamband atvinnurekenda og launafólks haldist á meðan óvissa ríkir.

Við alþingismenn þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að létta óþarfaáhyggjum af Grindvíkingum. Nægar eru þær samt. Við erum í miðjum storminum og vitum ekki hvernig þessir atburðir enda. Stjórnvöld þurfa að nýta tímann vel í allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem mögulegar eru, allt frá byggingu varnargarða að hamfaratryggingum og afkomu fólks og heilsu.