154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[15:04]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir sína munnlegu skýrslu. Það skiptir okkur máli. Það er hverju orði sannara að við stöndum frammi fyrir mikilli náttúruvá, einni þeirri stærstu sem við höfum séð á okkar líftíma. Það er því afar mikilvægt að næstu skref sem stigin eru séu réttu skrefin. Við þurfum að grípa vel utan um aðstæðurnar sem hafa nú skapast á Reykjanesskaga og við þurfum að taka vel utan um fólkið sem og að passa upp á gagnsæi og að allar upplýsingar sem hlutaðeigandi aðilar fá séu skýrar, því að það er engum greiði gerður að hylma yfir raunverulega stöðu.

Nú þarf að fara í sérstakar aðgerðir til að mæta fólkinu. Með hvaða hætti það verður gert er verkefni sem verður lagt í hendur ríkisstjórnarinnar að finna út úr. Við þurfum að finna fólki búsetuúrræði til lengri tíma því að það á það enginn skilið, eins og hæstv. dómsmálaráðherra nefndi hér í gær, að upplifa sig sem flóttamann í eigin landi. Það skiptir máli að við finnum lausn á þeirri stöðu sem uppi er og stígum örugglega til jarðar fyrir fólkið í Grindavík.

Ég vil einnig nýta tækifærið hér í dag til að hrósa því aðdáunarverða starfi sem átt hefur sér stað undanfarna daga og vikur hjá viðbragðsaðilum okkar. Við eigum flott fagfólk á öllum sviðum og við höfum ítrekað orðið vitni að því að þau standa vaktina við mjög krefjandi aðstæður. Við höfum séð það í verki hversu mikilvægt það er að allar neyðar- og viðbragðsáætlanir séu skýrar og sú vinna sem unnin hefur verið eftir þeim hefur verið til fyrirmyndar.

Ég vil enda ræðu mína hér í dag á að þakka fyrir það ómetanlega starf viðbragðsaðila sem hafa sýnt hnökralaus viðbrögð við erfiðar aðstæður og Grindvíkingum sína þolinmæði og sína elju og hugrekki við þær aðstæður sem blasa við. Samtakamátturinn í okkar samfélagi er sterkur þegar hætta steðjar að og þegar áföll dynja yfir og fyrir það getum við ekki verið annað en þakklát.