154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[15:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Enn og aftur hefur móðir jörð minnt okkur Íslendinga á mátt sinn og það að við búum á eyju sem er enn í stöðugri mótun. Þeir kraftar sem leystir hafa verið úr læðingi eru af þeirri stærð að verk okkar mannanna eiga enga möguleika. Við horfum því upp á stórfellda eyðileggingu af völdum þeirra jarðskjálfta, landriss og landsigs sem nú á sér stað á sunnanverðu Reykjanesi.

Í miðju þessara skelfilegu hamfara er Grindavík og íbúar Grindavíkur upplifa nú atburði á skala sem við Íslendingar höfum blessunarlega ekki þurft að upplifa í rúma hálfa öld. Hugur okkar allra er því hjá þessum íbúum og forgangsvinna okkar hv. alþingismanna verður að vera að tryggja velferð og framtíð þessara íbúa. Öll önnur verk blikna í samanburði við þá vinnu.

Við Íslendingar erum svo lánsöm að eiga viðbragðskerfi á heimsmælikvarða. Hafandi starfað innan þessa kerfis í tæp 30 ár hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sjá það þróast og eflast í gegnum árin. Sem betur fer höfum við á undanförnum árum lagt aukið fjármagn í að styðja við uppbyggingu kerfisins. Það eru ekki nema níu ár síðan þeir félagar Víðir og Rögnvaldur, sem við þekkjum öll frá því úr heimsfaraldrinum, þurftu að skipta á milli sín 12 tíma vöktum í samhæfingarstöðinni þegar gaus í Holuhrauni. Þessar vaktir stóðu þeir svo mánuðum skipti því að fjárframlögin til almannavarna á þeim tíma dugðu einungis fyrir örfáum starfsmönnum.

Mikilvægt er að því aukna fjárframlagi sem kom til kjarnarekstrar almannavarna í kjölfar heimsfaraldursins sé ekki einungis viðhaldið heldur aukið, því augljóst er að álagið á viðbragðskerfið okkar mun einungis aukast á komandi árum nú þegar fleiri og fleiri eldstöðvakerfi eru að vakna af dvala og við förum að sjá auknar afleiðingar hér á landi af loftslagsvánni.

Viðbragðskerfi okkar eru einnig að miklu leyti byggð upp af sjálfboðaliðum frá Rauða krossinum og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þar standa þúsundir einstaklinga vaktina dag og nótt og án þeirra væri ástandið mun alvarlegra. Það er samt mikilvægt að muna að þegar atburðir og aðgerðir dragast á langinn er ekki hægt að treysta einungis á sjálfboðaliða. Við þurfum því að huga að því hvernig við tryggjum langtímaaðstoð við íbúa Grindavíkur. Við erum enn í miðjum atburði. Það sést best á því að einungis fyrir örfáum mínútum síðan var Grindavík rýmd í annað sinn, því að gös mældust á mælitækjum Veðurstofunnar.

Hvort heldur sem það gýs eða ekki er augljóst að skemmdirnar og ástandið í Grindavík er skelfilegt og ansi erfitt fyrir nokkurt okkar að átta okkur á því hvernig íbúum Grindavíkur líður þessa dagana. Því er mikilvægt fyrir okkur öll sem þjóð að taka þessum íbúum opnum örmum og gera allt sem í okkar valdi stendur til að lina þjáningar þeirra. Eitt það skelfilegasta sem fólk sem lendir í náttúruhamförum stendur frammi fyrir er óvissan; óvissan um hvort það getur flutt aftur til síns heima, óvissan um hvað verður um innbú þess og hús, óvissan um hvort það missir vinnuna, óvissan um hvort það getur haldið áfram í skóla. Endalaus óvissa.

Eitt helsta hlutverk ríkisstjórnarinnar á þessum miklu óvissutímum er því að taka ákvarðanir hratt og örugglega sem eyða þessari óvissu. Nú er ekki tíminn til að skipa nefndir eða starfshópa til að spá í hvað eigi að gera heldur er mikilvægt að taka ákvarðanir sem sýna það strax í verki að við munum standa þétt við bakið á öllum íbúum Grindavíkur og gera allt það sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þeim. Við í þingflokki Pírata erum tilbúin að vinna þétt og vel með hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórninni allri í því að styðja við bakið á Grindvíkingum á þessum skelfilegu tímum. Nú eins og svo oft áður er mikilvægt að við munum að við erum öll almannavarnir.