154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[15:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum hér í dag fyrir umræðuna. Það er gott að finna þann samhug sem er hér meðal þingmanna í dag. Það er gott að finna að öll íslenska þjóðin ætlar að standa þétt við bakið á Grindvíkingum og við ætlum að fara í gegnum þetta krefjandi verkefni saman, enda erum við sterkt samfélag. Okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp sterkt og öflugt samfélag hér á landi. Okkur hefur lánast að fara í gegnum ýmsar alvarlegar hamfarir á síðustu áratugum og við höfum gert það vel. Fyrir 50 árum þurftu Vestmannaeyingar að yfirgefa eyjuna sína upp á von og óvon rétt eins og Grindvíkingar þurftu að yfirgefa víkina sína síðastliðið föstudagskvöld upp á von og óvon. Skilaboð mín til okkar allra er: Horfum til Vestmannaeyja, horfum til þeirrar blómlegu byggðar sem þar hefur risið og reis úr ösku. Vestmannaeyjar eru gott dæmi um að fyrir 50 árum — við höfum verið að minnast þeirra tímamóta — dundu yfir þær hörmungar sem við þekkjum en á undraskömmum tíma tókst íbúum þar að byggja bæinn sinn upp aftur og þar er gott og sterkt samfélag. Því hef ég fulla trú á því að Grindvíkingum takist það sama, að byggja upp gott og öflugt samfélag í víkinni fögru.