154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:10]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja umræðu um þennan þátt því að því var haldið fram þegar þessar breytingar voru kynntar í samráðsgátt að þær væru til höfuðs minni sveitarfélögum, sem er rangt. Þetta er fyrst og fremst breyting á kerfinu vegna þess, eins og ég nefndi í inngangi mínum í ræðunni, að við getum einfaldlega ekki haldið áfram með fasteignaskattsumhverfið eins og það er og að hluta til var það farið að vinna gegn upphaflegu markmiði sínu. Síðan höfum við séð í vaxandi mæli með þessum miklu breytingum sem hafa orðið á sveitarfélagaskipaninni að kerfið sem var er fullt af veikleikum, er með ofjöfnun og hugsanlega vanjöfnun þannig að það eru ekki sambærilegir hlutir að gerast. Það er ekki beinlínis verið að setja þetta frumvarp þannig fram að það sé verið að þvinga fram sameiningar. Það eru hins vegar sett fram einhver mörk, um 2.000 og 7.000, sem eru kannski ábendingar um hvað það væri hagkvæmt í rekstri. Þannig gætu t.d. tvö 1.000 manna samfélög sameinast og gætu þar af leiðandi séð fyrir sér hvaða breytingar yrðu. Við erum hins vegar með annað fyrirkomulag nú þegar þar sem við erum að hvetja til sameiningar í gegnum jöfnunarsjóðinn. Ríkið setti þar ákveðna fjármuni inn og jöfnunarsjóður hefur verið að beina fjármunum þangað núna á síðustu árum í umtalsverðum mæli og sveitarfélögin fá verulegan fjárhagslegan hvata til sameiningar þannig að ég held að það sé ekki eitthvað sem togast á í sitthvora áttina í þessu. Hér er fyrst og fremst verið að búa til einfaldara, skilvirkara og gegnsærra kerfi sem tekur þá svolítið meira mark á þeim raunveruleika sem við búum við í dag með 63 sveitarfélög en ekki þá sögu að þetta er síðan 1937 og fyrir 30 árum voru þau 204.