154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:13]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svar. Mig langar líka að fara í önnur markmið þessa frumvarps. Ég tel m.a. af hinu góða að við séum að sjá Reykjavík fá fjármuni til að þjóna tvítyngdum börnum sem hefur nú verið mikið ágreiningsefni um árabil. Barn sem býr í Kópavogi fær styrk en barn sem býr í Reykjavík hefur ekki fengið hann. Þarna er verið að jafna á milli sveitarfélaga og þá kannski ekki síður að jafna á milli þeirra barna sem þarna eiga í hlut. Mig langar að nefna að lokum þetta framlag eða þann stuðning sem á að verða við sveitarfélög sem talin eru sinna höfuðstaðarhlutverki. Hæstv. ráðherra nefndi Reykjavík og Akureyri sem dæmi. Mig langar að nefna tvö svæði til viðbótar, mig langar að nefna Árborg og mig langar að nefna Reykjanesbæ. Þarna erum við með sveitarfélög, Reykjanesbær sem telur yfir 20.000 manns og Árborg eða Selfoss kannski rúmlega 10.000. Reykjanesbær er með miklu sterkari félagslega þjónustu en sveitarfélögin í kring. Árborg er sömuleiðis að gera þetta. Við höfum verið að sjá þessi sveitarfélög vaxa mikið og sinna mörgum þáttum sem önnur sveitarfélög í kringum þau eru ekki að gera. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta eigi bara að eiga við um þessi tvö sveitarfélög sem hæstv. ráðherra nefndi eða hvort þetta sé opin skilgreining og sveitarfélög geti þá sótt um það að fá slíkt höfuðstaðarframlag.