154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:20]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Auðar Svanssyni fyrir að taka þetta upp sérstaklega. Það er einfaldlega þannig að 1996, við þessa yfirfærslu, gerðu sveitarfélögin og ríkið samkomulag og því hefur verið fylgt eftir. Ég fór yfir af hverju það væri þörf á því, og við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að það sé skynsamlegt, að taka þennan þátt er varðar kostnað við börn með íslensku sem annað tungumál út fyrir sviga vegna þess að hann hefur gjörbreyst. Ég ætla líka að halda því fram að það hefði ekki verið neitt að því ef sveitarfélögin í landinu hefðu sameiginlega komið við 25 ára afmæli yfirfærslunnar eða eitthvað slíkt og sagt: Heyrðu, nú langar okkur að setjast niður með ríkinu og gera nýtt samkomulag. En því er ekki að heilsa. Reykjavíkurborg ákvað að fara í málaferli við ríkið og meðan Reykjavíkurborg er í málaferlum við ríkið er auðvitað ekki hægt að fara og semja við sama aðila á sama tíma um eitthvert nýtt samkomulag. Það er ekki hægt. Ég hefði kosið að menn hefðu farið aðrar leiðir, ég verð að segja alveg eins og er. Og ég verð líka að segja alveg eins og er að mér finnst ekki óeðlilegt að horfa á þetta samkomulag frá 1996 og segja: Við ætlum að virða það. Skoða síðan hvað hafi breyst í raun og veru. Þá komumst við að því að það sem hefur raunverulega breyst er til að mynda fjöldi erlendra íbúa og þar af leiðandi barna með íslensku sem annað tungumál og það er það sem við erum að leiðrétta hér í þessu frumvarpi. En hitt, að setjast niður með sveitarfélögunum í landinu öllum og þess vegna að horfa til nýs samkomulags ef á því myndi finnast einhver flötur — það væri ég til í. En ekki á sama tíma og er verið að draga ríkið fyrir dómstóla á grundvelli sem mér finnst hæpinn.