154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:26]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Í árafjöld höfum við átt slíka umræðu, enda hefur samfélagið verið að breytast með ýmsum hætti á undanförnum árum og það hefur vissulega kallað á nýjar lausnir og nýjar nálganir af okkar hálfu. Að því leyti er kærkomið að fram skuli vera komið mál sem hefur það að markmiði að uppfæra regluverk og umgjörð sjóðsins til að hann geti sem best sinnt hlutverki sínu á nýjum tímum. Það hefur verið að þróast í gegnum árin hverjar helstu áskoranirnar eru sem við erum að fást við og á 20 ára ferli mínum í sveitarstjórnarmálum fylgdist maður vel með og kynntist því. Sat ég sjálfur átta ár í ráðgjafarnefndinni. Það var góður tími til að átta sig enn betur á málunum, ekki síst hvað skiptir máli fyrir sveitarfélög víðs vegar um landið og líka sérstöðu þeirra og hvernig við getum sem best staðið með þeim. Það er nefnilega grundvallartilgangur jöfnunarsjóðsins, sem við megum aldrei hvika frá, að jafna aðstöðu sveitarfélaga til að veita íbúum sínum þjónustu og standa á bak við þá, ég tala nú ekki um lögbundin verkefni. Sveitarfélögin eru mismunandi hvað varðar tekjumöguleika. Þau eru mismunandi varðandi útgjöld, dreifbýli, stærðarhagkvæmni og slíkt, og við verðum ávallt að hafa það í huga. Hvaða sveitarfélagi sem á í hlut þarf að sýna virðingu. Jafnvel þó að þeir sem reka sveitarfélög vilji auðvitað reka þau sem best þá verður það að vera gert af gagnkvæmri virðingu fyrir öðrum. Hér var komið inn á eitt mál sem er dæmi um hið gagnstæða: málaferli Reykjavíkurborgar. Það er eiginlega til skammar á sveitarstjórnarstiginu fyrir höfuðborgina að haga sér með þeim hætti. Öll skiljum við þær áskoranir sem hér eru en svona eigum við ekki að sjá. Sveitarfélögin eiga að standa hvert með öðru og ég tala nú ekki um með þeim sem mest þurfa á því að halda. Það er nefnilega hlutverk jöfnunarsjóðs að stuðla að byggðajafnrétti í landinu með þeim ráðum sem við getum beitt með sanngjörnum hætti. Það eru ekki öll sveitarfélög sem njóta þeirra forréttinda að þurfa ekki að nýta tekjustofna sína, til að mynda til að geta staðið undir lögbundinni þjónustu og einfaldlega veitt íbúum þá lágmarksþjónustu sem þeir eiga rétt á og þurfa á að halda.

Þarna þurfum við að horfa bæði til smærri og stærri sveitarfélaga, þó að vissulega hafi verið töluvert mikið um sameiningar sveitarfélaga að undanförnu. Sumt hefur legið mjög beint við og hefur strax komið fram í hagfelldari einingum og sterkari sveitarfélögum. Í öðrum tilvikum er þetta ekki alveg eins einfalt, m.a. af landfræðilegum ástæðum, og ekki er þar með sagt að það verði til peningar eða beinn ávinningur við slíkar sameiningar per se. En við horfum til þess að styrkja samfélögin og þá þarf líka að horfa til þess að alltaf sé verið að tala saman, til að mynda í innviðaráðuneytinu. Það er verið að fást við byggðamál á einum stað, samgöngumál á öðrum stað og síðan sveitarstjórnarmál. Þessar einingar þurfa virkilega að vinna saman og flétta saman sínar áherslur til þess að við náum sem sterkastri niðurstöðu fyrir alla landsmenn. Það er alveg skiljanlegt að mörg smærri sveitarfélög hafi áhyggjur og við viljum ekki beinlínis vera að neyða fólk til sameininga eða eitthvað slíkt. Bestu og vel heppnuðustu sameiningarnar hafa náttúrlega verið þegar íbúarnir sjálfir hafa tekið þessar ákvarðanir. Hvort sem maður er alltaf sammála þeim sem vilja bíða með slíkt þá á að sýna fólki þá virðingu að það geti fengið fljúgandi start inn í nýtt samfélag. Við erum að sjá margar spennandi sameiningar núna taka fyrstu skrefin í nýjum sveitarfélögum. Það lítur svo sem ágætlega út og verið er að ræða fleira í þeim efnum.

Eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnum sveitarfélaga er að halda uppi skólastarfi, að veita börnum góða menntun. Þau þurfa að geta tryggt góða menntun og þróun náms. Þau þurfa að fá til sín góða og menntaða kennara með réttindi til að sinna því. Við viljum alls ekki að það gerist að vegna stöðu sveitarfélaga förum við að sjá tvær þjóðir í landinu, þar sem börn í sumum sveitarfélögum sem eru fjárhagslega hjálparvana til að veita fullnægjandi þjónustu fá hana ekki vegna stöðu sveitarfélaganna. Það viljum við ekki að gerist. Það verður ávallt að vera grundvallarforsenda í verkefnum jöfnunarsjóðsins að tryggja jafnrétti til náms þannig að við getum veitt börnum sem jafnasta og besta fræðslu og stuðning hvers konar, óháð búsetu. Það verður ávallt að vera í forgrunni. Síðan eru einingarnar auðvitað mjög misstórar og þar af leiðandi er hagkvæmara að reka sumar. Sveitarfélög þurfa mörg — víðlend og fjölkjarna sveitarfélög í dreifbýli — að meta það hverju sinni hvernig tryggja megi sem besta menntun fyrir börnin og félagslega virkni þeirra með öðrum krökkum og slíkt, og hvernig hægt er að ná sem bestum árangri í sveitarfélaginu og fólkið í þeim efnum.

Það hefur margt verið að breytast á undanförnum árum er varðar verkefni sveitarfélaganna. Það er vissulega krefjandi nú að geta veitt tvítyngdum börnum góða menntun, eins og hefur verið nefnt. Það kostar enn þá betra utanumhald og líka auðvitað fagfólk til að fylgja því eftir og sinna því. Á það hefur sérstaklega verið bent hér og lagt til að horft verði sérstaklega til stöðu Reykjavíkurborgar hvað þetta varðar. En ég vil líka minna á að þetta á við um mörg önnur sveitarfélög á landinu þar sem eru íbúar af erlendum uppruna og börn tala fleiri en eitt tungumál. Við þurfum líka að geta haldið vel utan um þau og það er ekki síður krefjandi í smærri sveitarfélögum þar sem ekki er auðvelt að vera með fagfólk á breiðu sviði til að fylgja því eftir. Þetta á því sannarlega við fleiri sveitarfélög. Það var ágætlega bent á það áðan í andsvari að sveitarfélög víðs vegar um landið gegna ákveðnu kjölfestuhlutverki þegar kemur að félagsþjónustu og ýmiss konar stoðþjónustu fyrir nágrannasveitarfélög. Ég get nefnt Skagafjörð, Ísafjarðarbæ, Akranes, Borgarbyggð o.s.frv., til viðbótar þeim sem áður hafa verið nefnd.

Síðan er annað verkefni sem jöfnunarsjóður verður ávallt að geta sinnt og verður ávallt að vera með borð fyrir báru til að sinna. Auðvitað höfum við séð áföll verða á landsvísu þar sem öll sveitarfélögin fá ágjöf samtímis sem gerir þeim erfiðara fyrir að sinna sínum verkefnum, en stundum verða líka alvarlegir brestir á einstökum landsvæðum og í einstökum sveitarfélögum. Stærri vinnustaðir sem hafa skipt miklu máli leggjast jafnvel skyndilega af. Núna nýverið sjáum við Strandabyggð sem dæmi. Þá þurfum við að geta veitt þessum sveitarfélögum sérstaka aðstoð, jafnvel þótt hún sé tímabundin, til að komast aftur á legg með öllum ráðum svo ekki þurfi að draga saman og skerða svo þjónustu að ekki verði eins byggilegt í sveitarfélaginu. Það viljum við ekki. Við þurfum að gera hið gagnstæða; að standa enn þá betur með þeim. Þessu þurfum við að gæta sérstaklega að og ef þetta fær framgang þarf að passa það.

Hér hefur verið nefnt að það verði sérstaklega horft til þess að geta veitt ákveðinn byggðastuðning, það verði passað upp á þessi sveitarfélög sem eru viðkvæm og hafa mikið treyst á aðkomu jöfnunarsjóðsins. Hjá sumum er ekkert sjálfgefið að sameiningar skili fjárhagslegum ávinningi. Við getum nefnt Reykhólahrepp sem dæmi og fleiri slík sveitarfélög, t.d. sveitarfélög í Strandasýslu. Auðvitað gæti þetta annars staðar tengst jafnvel samgöngubótum. Ég hugsa að það væri önnur staða uppi, til að mynda með Súðavík og Ísafjarðarbæ, ef komin væru göng til Súðavíkur. Foreldrar lifðu þá ekki í ótta um að skólanum yrði lokað og keyra þyrfti með börnin niður þessa hræðilegu hlíð daglega yfir veturinn, svo ég nefni nú tengingu við samgöngurnar.

En það er vel að horft sé til þess að geta veitt sérstakan byggðastuðning og að komið sé til móts við sveitarfélög sem hafa virkilega þurft á sjóðnum að halda og framlögum hans, og að þeim verði ekki stillt þannig upp að þurfa að fara í einhverjar misspennandi sameiningar til að það geti gengið eftir, heldur verði einfaldlega haldið utan um þessi sveitarfélög og þau geti treyst því að svo verði. Þegar við erum komin í slíkt skiptir líka miklu máli að eins mikið gagnsæi verði til staðar og mögulegt er. Þegar kemur að því að veita stuðning í einstökum sveitarfélögum verður að vera algjörlega skýrt á hvaða forsendum og eftir hvaða leikreglum það er gert þannig að það þoli alla rýni, því að annars vitum við að það verður opið fyrir þessari gagnrýni: Hvers vegna þarna en ekki hér?

Það er ýmislegt þarna sem er til bóta. Vissulega er verið að færa okkur inn í nútímann og það er vel. Hins vegar er ýmislegt sem þarf að gæta að í leiðinni. Ég treysti því að við munum hafa tækifæri til að fara ofan í það í meðferð nefndarinnar, þannig að málið fái vandaða yfirferð þar sem horft er til hagsmuna og sjónarmiða smærri sem stærri sveitarfélaga óháð staðsetningu þeirra á landinu. Eins og ég segi þá þurfum við að tryggja sem jafnasta stöðu sveitarfélaga og gleyma aldrei hver raunverulegur tilgangur jöfnunarsjóðsins er: Að jafna aðstöðu sveitarfélaga til þess að geta sinnt sínum verkefnum og haldið uppi blómlegu samfélagi.