154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[16:39]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um Náttúrufræðistofnun. Frumvarpið var unnið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í náinni samvinnu við viðkomandi stofnanir ráðuneytisins.

Frumvarpið felur í sér tillögu um að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands auk þess sem stofnunin muni framvegis bera heitið Náttúrufræðistofnun. Tillagan er hluti af umfangsmiklum stofnanabreytingum sem unnið hefur verið að frá árinu 2022. Áformað er að leggja fram á 154. löggjafarþingi alls þrjú frumvörp þar sem lagðar eru til stofnanabreytingar og auk þess verður lagt fram frumvarp um að sameina Stofnun Vilhjálms Stefánssonar við Háskólann á Akureyri. Auk þess frumvarps sem hér liggur fyrir er fyrirhugað frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun og frumvarp til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun. Um er að ræða tillögur um þrjár stærri og öflugri stofnanir í stað átta, auk þess sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar fer undir Háskólann á Akureyri eins og áður segir og síðan má bæta við að gert er ráð fyrir því að sameina Orkusjóð og loftslagssjóð.

Áform um lagasetninguna og drög að fyrirliggjandi frumvarpi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda og hefur verið unnið úr þeim athugasemdum sem bárust eins og nánar greinir í samráðskafla frumvarpsins.

Í vinnu við stofnanabreytingar hefur verið lögð áhersla á að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf og árangur. Eins og áður segir eru markmiðin m.a. að til verði stærri og kröftugri stofnanir sem efla þekkingar- og lærdómssamfélag, samnýting á þekkingu, innviðum og gögnum og faglega spennandi og áhugaverðir vinnustaðir. Einnig er rík áhersla lögð á að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið.

Að baki frumvarpinu liggur frumathugun sem gerð var í samvinnu við forstöðumenn og aðra starfsmenn stofnana. Athugunin leiddi m.a. í ljós samlegð með starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Landmælinga Íslands, Veðurstofu Íslands og Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR. Ávinningur lýtur að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu. Eftir nánari skoðun hefur þó verið fallið frá því að svo stöddu að hafa ÍSOR með í áformum um sameiningu sökum sérstöðu hennar, en ÍSOR er B-hluta stofnun og í samkeppnisrekstri. Einnig hefur verið ákveðið að taka Veðurstofuna til nánari skoðunar í tengslum við sameiningaráform.

Stýrihópur ráðuneytisins skilaði ráðherra forathugun í desember 2022 þar sem lögð voru fram meginmarkmið og tillögur um breytingar á stofnanaskipulagi þar sem er m.a. er byggt á greiningu á fjármálum og rekstri, mannauðsmálum og húsnæðismálum auk þess sem sérstaklega var skoðuð staðsetning starfa á landsbyggðinni.

Í frumvarpi þessu er Náttúrufræðistofnun ætlað að fara með þau hlutverk og verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafa í dag og eru almennt ekki lagðar til breytingar hvað það varðar. Þær breytingar á verkefnum eða hlutverkum sem eru lagðar til koma til af sérstökum ástæðum, svo sem ef ekki eru forsendur fyrir þeim lengur eða leggja þarf þau niður sökum sameiningarinnar.

Í dag sinna Landmælingar Íslands fyrst og fremst þjónustu- og samræmingarhlutverki meðal opinberra stofnana og sveitarfélaga vegna grunngagna um Ísland. Segja má að stofnuninni sé ætlað að tryggja að slík gögn séu tiltæk, aðgengileg og varðveitt óháð því hver aflar þeirra, t.d. þegar kaup á gögnum eru boðin út. Einnig er mikilvægt grunnverkefni Landmælinga að reka hnita- og hæðarkerfi landsins sem er undirstaða undir allar staðarákvarðanir, svo sem vegna framkvæmda, eignamarka, orkunýtingar, ferðaþjónustu, skipulagsmála, landnýtingar og samgangna. Þessi verkefni verða seint talin til samkeppnisrekstrar því að ríkið þarf að tryggja að grunngögn sem aflað er fyrir opinbert fé nýtist sem best og séu traust, örugg og aðgengileg. Landmælingar Íslands hafa dregið sig að langmestu leyti út úr samkeppnisrekstri á liðnum árum og hætti t.d. loftmyndatökum af Íslandi árið 1998 og árið 2007 var kortalager og útgáfuréttur landakorta seldur með útboði. Þá voru gögn stofnunarinnar gerð gjaldfrjáls 2013.

Meginhlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands birtist í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, en stofnunin hefur einnig umfangsmikið hlutverk samkvæmt náttúruverndarlögum. Stofnunin sinnir m.a. vöktun á lykilþáttum íslenskrar náttúru, skráningu náttúruminja, mati á verndargildi þeirra, hefur umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár, ber ábyrgð á vöktun, veitingu umsagna, fræðslu, ráðgjöf o.fl. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umtalsvert hlutverk í samstarfi við Umhverfisstofnun samkvæmt lögum um lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, að því er snýr að ráðgjöf, umsögn, rannsóknum og skráningu.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn starfar á grundvelli laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, og hefur verið við lýði frá árinu 1974 í kjölfar samkomulags forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, stjórnar Laxárvirkjunar og Landeigendafélags Laxár og Mývatns frá því í maí 1973, sem kvað m.a. á um samningu frumvarps til laga um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins. Samningurinn markaði endalok svokallaðrar Laxárdeilu vegna virkjunar Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir er lagt til að Náttúrurannsóknastöðin verði starfrækt undir væng Náttúrufræðistofnunar.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hefur staðið fyrir vöktun og rannsóknum við Mývatn og Laxá í fimm áratugi. Brýnt er að áfram verði tryggð samfella í náttúruvöktun stöðvarinnar og að það mikilvæga vísinda- og fræðastarf sem þar fer fram haldi áfram. Um er að ræða litla stofnun með stórt hlutverk og eingöngu tvo fastráðna starfsmenn. Aðstöðuleysi er farið að segja til sín og stofnunin hefur ekki næga burði ein og sér eigi hún að uppfylla þær margvíslegu stjórnsýsluskyldur sem ríkisstofnunum ber að sinna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur þá aðstöðu, búnað og starfsfólk sem þarf til að sinna verkefninu og tryggja stofnanaumgjörð sem upp á vantar. Starfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar fellur mjög vel að starfsemi þeirra stofnana sem sameinast í Náttúrufræðistofnun þótt umfangið sé mun minna og verksvið þrengra.

Hugmyndir um sameiningu Náttúrufræðistofnunar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn eiga sér langan aðdraganda. Í nóvember 2014 vann stýrihópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar. Meðal sviðsmynda var sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Meginforsendur verkefnisins voru að stefna bæri að aðskilnaði milli rannsóknar- og vöktunarverkefna og stjórnsýslu annars vegar og framkvæmdaverkefna stofnana hins vegar, jafnframt að leitast við að styrkja og samræma rannsókna- og vöktunarinnviði svo að fyrir lægi skýr sýn á það hvaða rannsóknir og vöktun á náttúru landsins væri rétt að stunda. Í skýrslu stýrihópsins frá árinu 2015 var lögð til sameining Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Áformin gengu ekki eftir á þessum tíma en sömu röksemdir eiga við nú um hagkvæmni og ávinning.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna, kortlagningar og vöktunar á náttúru Íslands. Tryggja þarf markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með góðu aðgengi að rannsóknum og gögnum og áreiðanlegum rauntímamælingum. Einnig þarf að tryggja forsendur fyrir öflugum grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum sem eru unnar á grundvelli samráðs milli eininga.

Verði frumvarpið að veruleika mun fjöldi starfsfólks í Náttúrufræðistofnun verða alls 72, sem áfram starfi á núverandi starfsstöðvum stofnananna í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Mývatni og Breiðdalsvík.

Ný stofnun þarf að hafa skýra og greinargóða yfirsýn yfir náttúru Íslands á hverjum tíma, búa yfir áreiðanlegum gögnum og vera öflug í miðlun upplýsinga og fræðslu. Litið er til þess að ný Náttúrufræðistofnun geti með öflugri hætti stuðlað að bættu öryggi íbúa og innviða, markvissum viðbrögðum og aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga, vernd náttúru, sjálfbærri nýtingu auðlinda og náttúru og kolefnishlutleysi Íslands 2040.

Frumvarpið felur í sér talsverðar breytingar frá lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Lagt er til að hlutverk og verkefni Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn séu færð inn í ný lög auk helstu ákvæða núverandi laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á öðrum lögum til samræmis við ákvæði frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að sameiningin hafi í för með sér hagræðingu til lengri tíma sem nýtt verður til að efla nýja stofnun. Í henni felst m.a. samnýting á tækjum og búnaði, betri nýting fjármagns vegna sérhæfðra upplýsingakerfa, aukin samþætting og samlegð í stoðþjónustu, tækifæri til að draga úr húsnæðiskostnaði, minni launakostnaður, m.a. sökum færri stjórnenda, og aukin hagkvæmni í innkaupum.

Í því sambandi má nefna nýundirritaðan samning ráðuneytisins við Ríkiskaup um gæðamat og ráðgjöf á sviði opinberra innkaupa. Samningurinn felur í sér greiningu Ríkiskaupa á innkaupagögnum ráðuneytisins og stofnana þess og gæðamat á innkaupunum. Í gæðamatinu felst ráðgjöf um fylgni við lög, yfirsýn yfir sameiginlegar innkaupaþarfir og tækifærisgreining á innkaupum með áherslu á sjálfbærni og hagkvæmni. Nýleg greining á samkeppnisrekstri stofnana leiddi í ljós að hlutfall stöðugilda hjá Landmælingum sem vinnur við samkeppnisverkefni, sem skilgreina má í virkri samkeppni, er 1,8% og hlutfall stöðugilda hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 4,7%. Hjá Landmælingum er um að ræða þjónustu við vistun og miðlun gagna, kontrólpunktamælingar og ráðgjöf við gerð og miðlun landupplýsinga. Hjá Náttúrufræðistofnun er um að ræða gróðurgreiningu, vöktun fugla og sveppagreiningar. Gera má ráð fyrir að þessi verkefni verði tekin til skoðunar í stefnumótunarvinnu nýrrar stofnunar verði frumvarpið að lögum.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.