154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[16:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir framsöguna um þetta frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun. Hér er eru lagðar til umtalsverðar breytingar á stofnanaumhverfi þeirra stofnana sem sinna grunnrannsóknum á náttúru Íslands og mér finnst mikilvægt að Alþingi fái þetta mál til umfjöllunar og velti fyrir sér kostum og göllum við það. Þegar við í þingflokki Framsóknar afgreiddum þetta mál til þingsins þá bókuðum við einkum tvær ábendingar varðandi málið og mig langar að koma þeim á framfæri og spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þau atriði sem þar er snert á.

Í fyrsta lagi telur þingflokkurinn að það sé afturför að orðið náttúrustofur komi ekki fram í heiti laganna því að þó að aðeins sé fjallað um náttúrustofurnar í einni grein laganna þá er þetta sannarlega frumvarp um bæði Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur og umgjörðina sem þessar stofnanir starfa eftir. Náttúrustofurnar eru auk þess margar og það væri til baga að mínu áliti að heitið kæmi ekki fram í fyrirsögn laganna. Fyrri spurningin snýr að þessu, hvort ráðherra telji koma til greina að nefndin skoði þetta frekar. Hitt snýr meira að dreifingu starfa og sérstaklega hvort það sé nægilega tryggt að áherslan á að fjölga störfum á landsbyggðinni, sem kom fram í máli ráðherra og hefur komið fram víða í máli ráðherra, gangi eftir.