154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[16:52]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og athugasemdina. Það hvort orðið náttúrustofur sé í heitinu er eitthvað sem hv. nefnd ræðir bara, það mun ekki breyta neinu um innihaldið. Það liggur alveg fyrir að það er vikið að náttúrustofum af góðri ástæðu og við höfum líka átt samtal við forsvarsmenn þeirra vegna þess að þeir hafa sýnt þessu mikinn áhuga og ég vona að það komi eitthvað gott út úr því og við erum að ræða við Samband íslenska sveitarfélaga vegna bókunar sem þeir voru með um hugsanlegt samstarf, jafnvel að ganga lengra hvað það varðar og við fögnum því bara.

Varðandi dreifingu starfa þá held ég að það sé ekkert hægt að ganga neitt lengra í að skrifa hlutina út. Þetta er náttúrlega tilgreint, held ég, alls staðar og kemur alls staðar fram að markmiðið er að færa störf út á land. Af hverju? Vegna þess að þar eru verkefnin að stærstum hluta og staðarþekking verður seint vanmetin og aldrei ofmetin. En það er hins vegar mikilvægt að hafa augun á þessu. Við höfum auðvitað frá því að ég kom inn í ráðuneytið t.d. fært lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn og höfum verið að styrkja starfsstöðvarnar um landið. Við ætlum ekki að færa neina sem eru að vinna núna á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar liggur fyrir að það verður ansi mikil endurnýjun og þá höfum við hug á því að hafa þetta sem störf með staðsetningu þó svo að þau geti verið á nokkrum stöðum á landinu.