154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[16:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og eins og hv. þingmaður vísaði til þá segir hérna í 10. gr.:

„Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun, nánari ákvæði um skipulag Náttúrufræðistofnunarinnar, þ.m.t. staðsetningu starfsstöðva hennar með það að markmiði að fjölga störfum á landsbyggðinni.“

Ég er ekki viss um að í mörgum lögum sé þetta skrifað jafn skýrt út og hér. Mér er það reyndar til efs, mér finnst það bara harla ólíklegt, jafnvel útilokað, þannig að ég held að bæði hafi verkin hafa talað en sömuleiðis er frumvarpið mjög skýrt hvað þetta varðar. Varðandi forstjóra þá er það náttúrlega eitt af því sem tengist reglugerðinni líka, hvar höfuðstöðvar verða og annað slíkt. En það er ekki tilgreint hvar þær eru eins og var gert hér áður fyrr, þá voru allar höfuðstöðvar alla jafna í Reykjavík þó svo að þær sem voru í Reykjavík væru síðan settar á höfuðborgarsvæðið. Í ráðuneytinu var þetta skrifað út eins skýrt og það er. Það er sjálfsagt og mjög mikilvægt að taka góða umræðu í hv. þingnefnd og þinginu. En ég vil vekja athygli á einu, þegar ég kynnti þessar fyrirætlanir þá fékk ég heyra frá starfsfólkinu: Þetta mun ekki gerast því að þingið mun klúðra þessu. Við höfum séð þetta áður, höfum farið oft í gegnum þetta en þingið klúðrar þessu alltaf. En ég vil ekki trúa því að þingið klúðri þessu, ég trúi því að þingið klári þetta.