154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[16:59]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Ég vil byrja á því að segja að þetta er spennandi verkefni fyrir okkur sem sitjum í umhverfis- og samgöngunefnd vegna þess að ég tel að hér sé um heilmikla og marga samlegðarfleti að ræða.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í kjölfar orða hans hér áðan þar sem hann ræddi um að hluti af verkefnum þeirra stofnana sem frumvarpið kveður á um að verði sameinaðar lúti að samkeppnisrekstri. Ég tel og les það út úr frumvarpinu að undirliggjandi tilgangur með sameiningunni sé jú að tryggja að hér sé hægt að stunda öflugar náttúrufarsrannsóknir en jafnframt dregið fram mikilvægi kortlagningar á náttúrufari landsins. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í þessu samhengi hvort hann telji ekki, í þessari upptalningu sem hann fór yfir í framsögu sinni, að þau verkefni sem hafa legið fyrir í einhvers konar frumgreiningu séu þess eðlis að það sé einfaldlega mjög brýnt að þau tilheyri stofnuninni áfram. Ég sé sannast sagna ekki alveg fyrir mér að það sé endilega samkeppnisgrundvöllur fyrir öllum þeim náttúrufarsrannsóknum sem þarf að ráðast í og vöktun og sumar þeirra kannski þess eðlis að það er enginn endilega í samkeppnisrekstri sem hefði áhuga á því að fylgjast með þróun mála með tilliti til loftslagsbreytinga. Ég hefði haldið að við værum sammála um það í þessum þingsal að það sé mjög mikilvægt að hafa fastan punkt í því og sterka og stönduga stofnun sem stæði að því fyrir okkar tilstilli hér, að við myndum koma á fót sterkri og stöndugri stofnun til að sinna loftslagsmálum. En það er þetta með samkeppnisrekstur sem mig langar að heyra hæstv. ráðherra fara aðeins betur í.