154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[17:01]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að við myndum kannski slá einhver ný met ef þetta færi út í deilur um eitthvað sem er ekki neitt. Það er ekkert leyndarmál að þegar við fórum í þessa sameiningu þá skoðuðum við, eðlilega finnst mér, hvar samkeppnisrekstur er í öllu dæminu og niðurstaða liggur fyrir hvað þetta varðar. Greining á samkeppnisrekstri leiddi í ljós að hlutfall stöðugilda hjá Landmælingum sem vinna við samkeppnisverkefni, sem skilgreina má í virkri samkeppni, er 1,8% og hlutfall stöðugilda hjá Náttúrufræðistofnun er 4,7%. Ég sé enga ástæðu til þess fyrir okkur að vera að sinna því sem aðrir geta sinnt og er virk samkeppni í. Hins vegar er staðan bara sú að vandamálið sem við horfumst í augu við er að við þurfum virkilega að hvetja ungt fólk til að fara í nám á þessu sviði því að okkur vantar fólk í þetta.

Ég vek athygli á samkeppnisrekstrinum, hlutfallið hjá Landmælingum er 1,8% og hjá Náttúrufræðistofnun Íslands rúmlega 4% þannig að það er ekki um að ræða eitthvert stórt hlutfall eða það að við séum að breyta þessu í grundvallaratriðum. Auðvitað nýtum við útboð og annað slíkt og það er bara samkvæmt lögum og það er hagkvæmt og skynsamlegt þar sem það á við. Hins vegar liggur það alveg fyrir, líka hjá þessum stofnunum í hinum frumvörpunum, að það er vöntun á sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Þetta er þekking og starfsemi sem í yfirgnæfandi tilfellum er ekki í neinum samkeppnisrekstri en er nauðsynleg fyrir land og þjóð. Hv. þingmaður vísar þar í loftslagsmálin en það er líka mjög margt annað. Náttúruváin er náttúrlega eitthvað sem við höfum verið að leggja áherslu á og vekja athygli á og kallar á okkur öll núna en fleira mætti nefna.