154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[17:05]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst aðeins vekja athygli á verkefnum stofnunarinnar sem hér er frumvarp um. Ég held að við komumst að þeirri niðurstöðu þegar við lesum okkur til að það er hæpið að þetta sé mikill og virkur samkeppnismarkaður. (Gripið fram í.) Það er bara kjarni máls (OPJ: Já, já.) og þarf í sjálfu sér ekki að ræða meira nema menn vilji það, en það er einfalt að lesa sig í gegnum þetta. Hins vegar er það þannig með ÍSOR að þetta er B-hluta stofnun sem rekur sig eingöngu á sértekjum. Þegar menn skoðuðu samlegðina hvað það varðar lá alveg fyrir að það væri gríðarlega flókið mál og dýrt og erfitt að gera það þannig að þú værir með brunaveggina sem ætlast er til út af því lagaumhverfi sem við erum með. Það er staðreynd máls. Það var sett mikil vinna í að skoða nákvæmlega þessa þætti, hvort og hvernig væri hægt að gera þetta ef menn vildu stíga það skref. En það lá alveg fyrir og var augljóst að eftirlitsstofnanir myndu gera miklar athugasemdir mjög hratt við það að samkeppnisreksturinn væri inni í stórri stofnun sem væri annars ekki í samkeppnisrekstri og þá kæmi eðlilega upp sjónarmiðið um hvort þetta væri niðurgreiddur samkeppnisrekstur o.s.frv.

Varðandi það sem snýr að verkefnum Veðurstofunnar og að þessum stofnunum þá eru menn ekki hættir að skoða það. Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að klára þessi frumvörp sem nú liggja fyrir. En við erum ekki að útiloka það, og reyndar bara alls ekki, að stigin verði frekari skref. Í mínum huga skiptir þetta máli vegna þess að þetta verða betri tæki til að sinna þessum mikilvægu verkefnum sem snúa náttúrlega í þessu tilfelli að verndun náttúrunnar (Forseti hringir.) en það er bara svo margt fleira, sem við getum kannski rætt á eftir.