154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[17:18]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sömuleiðis andsvörin og sömuleiðis hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir gott innlegg í andsvörum. Ég ætla ekkert að lengja þetta mjög mikið en þó vil ég aðeins taka aðeins það sem hér var nefnt, svo það sé alveg skýrt. Varðandi Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn þá kemur þetta bara hreint og klárt fram í 1. gr.:

„Náttúrufræðistofnun stundar undirstöðurannsóknir á náttúru Íslands, vinnur staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland og rekur náttúrurannsóknastöð við Mývatn, sbr. lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.“

Það verður nú ekki skýrara. Það er í 1. gr. Mér finnst þetta stórmerkileg saga sem býr að baki Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn. Það tengist í rauninni í því sem hv. þingmaður var að vísa í, með aðlaðandi vinnustaði og annað slíkt, að við Gíg erum við að sjá starfsstöð sem er bara mjög spennandi, þar ertu með spennandi þekkingarsetur þar sem er Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður, RAMÝ o.fl., sveitarfélagið líka. Það er þetta sem við erum að líta til. Borgir á Akureyri eru annað dæmi. Þetta er að spretta víða upp. Það er alveg hugsunin í því þegar við erum að sameina þessar stofnanir að gera þetta að sterkum einingum til þess að við getum nýtt fjármögnun og mannauðinn í það sem stofnanir eiga að sinna. Við viljum helst ekki nýta fjármunina í annað.

Eins og hér hefur komið fram vantar okkur fræðafólk á þessu sviði og reyndar á öllum sviðum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Ég held að það sé hvergi ofgnótt af sérfræðingum á þessu sviði. Sem betur fer erum við með hæfa erlenda einstaklinga t.d. að vinna núna á Veðurstofunni vegna þess að við erum með lítið af fræðafólki á því sviði þannig að það eru líka erlendir einstaklingar sem fylgjast núna með jarðhræringum á Reykjanesskaga og öðrum slíkum þáttum. Það er alveg sérstakt markmið og við vorum að ræða á ráðherranefndarfundi í morgun um mikilvægi þess að hvetja ungt fólk og vekja áhuga ungs fólks á þessum fræðasviðum því að stéttirnar eru að eldast. Ein ástæða fyrir því að það á að vera einfalt að flytja störfin út á land er að það verður mikil endurnýjun á næstu árum. Við erum búin að taka það út hjá stofnununum og ráðuneytinu hvað það eru margir sem eru að hætta sökum aldurs á næstu árum sem gerir það að verkum að við sjáum að við getum þá fært störfin út á land. Þetta snýr líka að því, og við finnum það alveg að yngra fólk sérstaklega gerir þær eðlilegu kröfur að hafa aðlaðandi vinnustaði þar sem þú átt möguleika á fjölbreyttu starfsumhverfi og stærri stofnanir bjóða upp á það. Ef vel gengur hjá stærri stofnunum eru meiri möguleikar á því að gera þær að aðlaðandi vinnustað.

Varðandi meðferð gagna þá er það mjög stórt verkefni og við eigum bara langt í land þegar kemur að náttúrufarsupplýsingum og þurfum m.a. meta hve mikið hefur varðveist. Þar er mjög stórt verkefni. Mjög mikilvægt er að gögnin séu aðgengileg öllum. Það er ekki bara mikilvægt t.d. fyrir sveitarfélögin sem eru að skipuleggja byggð og innviði og fyrir ýmsa slíka aðila heldur gefur það líka möguleika á allra handa nýsköpun þegar gögn eru sett fram og eru aðgengileg þannig að hinir frjóu hugar íslensku þjóðarinnar og kannski annarra geti nýtt þau til allra handa atvinnusköpunar.

Ég heyrði ekki neina efnislega ádeilu á frumvarpið. Ég held að það skipti mjög miklu að hv. umhverfis- og samgöngunefnd rýni það vel og fái gesti og annað slíkt. En ég vek athygli á því að það hefur komið skýrsla eftir skýrslu um að við séum með allt of margar litlar ríkisstofnanir og það er ekki vel farið með opinbert fé og það er heldur ekki besta leiðin til þess að stofnanir geti sinnt því hlutverki sem þær eiga að sinna. Það er kjarni máls. Oftar en ekki, ef slík frumvörp hafa komið fram, þá hafa þau strandað í þinginu þannig að um leið og ég hvet hv. þingnefnd til að fara vel yfir málið þá hvet ég líka hv. þingmenn til að klára það því að það skiptir máli.

Ég hef staðið í svona sameiningum eiginlega alltaf þegar ég hef verið ráðherra og það er mikil breyting núna miðað við þegar ég var að gera þetta fyrst með heilbrigðisstofnanir. Ég sameinaði margar og enginn vill núna snúa til baka með þær sameiningar. Ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnmálamann nokkurn tímann nefna það. En það hefur orðið mjög mikil breyting á viðhorfi fólks almennt en ekki síst starfsfólks. Nú erum við öll sammála um að við viljum hafa eins mikið og hægt er af góðu og hæfu fólki sem er menntað á þessu sviði, og þú verður að vera menntaður á því sviði sem stofnunin tekur til til þess að geta sinnt þessum hlutverkum, við þurfum sérfræðinga á þessum sviðum, en þetta verður auðvitað líka að vera aðlaðandi og góður vinnustaður. Ef frumvarpið nær fram að ganga þá verða miklu betri tæki til þess að gera stofnunina að aðlaðandi vinnustað.

Það sem skiptir þó auðvitað alltaf mestu máli er að sinna þeim hlutverkum sem eru hér tilgreind og eru mjög mikilvæg. Hér var aðeins rætt um gögnin og þegar hv. þingmenn munu spyrjast fyrir um það þá munu þeir sjá að þar er mjög mikið verk óunnið þannig að því fyrr sem við getum hafist handa í nýrri stofnun því betra hvað það varðar.